139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

niðurskurður í heilbrigðiskerfinu.

[14:47]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það þarf ekki að koma neinum á óvart að við séum að ræða þetta í dag. Það eru tvö ár liðin frá bankahruninu. Hæstv. ráðherra fór yfir málið og svaraði samviskusamlega spurningum og staðfesti að ekkert samráð hefði verið haft við gerð þessara tillagna. Hæstv. ráðherra er að koma fram með nýjar tillögur eftir nokkra daga.

Virðulegi forseti. Í dag er 20. október árið 2010. Bankahrunið varð í október 2008. Um leið og bankahrunið varð setti þáverandi ríkisstjórn af stað vinnu. Þegar sú ríkisstjórn fór frá voru 93 sérfræðingar um allt land að störfum við að endurskipuleggja heilbrigðisþjónustuna og fleiri á leiðinni í þá vinnu. Menn voru að endurskoða módelin, menn voru búnir að samþykkja heilsustefnu til að berjast gegn offitu barna og hreyfingarleysi, verið var að skoða kostnaðarhlutdeild sjúklinga og opna fyrir það að við gætum nýtt aðstöðuna hér til að fá erlenda sjúklinga til landsins til að fá gjaldeyristekjur og störf fyrir heilbrigðisstarfsmenn. Menn voru að undirbúa Sjúkratryggingar fyrir nýtt hlutverk.

Virðulegi forseti. Allri þessari vinnu var hent út í hafsauga og það var gengið á milli fólks, sérstaklega heilbrigðisstarfsfólks, og sagt: Hafið ekki áhyggjur. Hæstv. þáverandi heilbrigðisráðherra Ögmundur Jónasson útskýrði það fyrir fólki að hann væri ekki í stjórnmálum til að taka óvinsælar ákvarðanir. Þessi lína var keyrð fyrir kosningar. Nú sjáum við afleiðingarnar.

Virðulegi forseti. Okkur er mikill vandi á höndum. Það er afskaplega mikilvægt að við gerum hvað við getum til að bjarga því sem bjargað verður því þetta er í fullkomnu uppnámi og afrakstur af algeru ábyrgðarleysi hjá stjórnmálamönnum. Þeir sem verða fyrir barðinu á því, virðulegi forseti, eru því miður sjúklingar (Forseti hringir.) og heilbrigðisstarfsfólk.