139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

niðurskurður í heilbrigðiskerfinu.

[15:01]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir að vekja máls á þessu og hefja þessa umræðu. Það er rétt sem hefur komið fram í umræðunni að niðurskurðurinn í heilbrigðiskerfinu er býsna brattur en við megum heldur ekki gleyma því að hagkerfi okkar tók býsna stórt högg og við viljum þrátt fyrir allt reyna að ná landi eins hratt og eins örugglega og við mögulega getum. Grunnhugmyndin í þeim sparnaðarhugmyndum sem verið er að leggja fram er skynsamleg vegna þess að við verðum að átta okkur á því að nútímalæknisfræði, nútímaheilbrigðisþjónusta krefst þess að verk séu unnin á þeim stöðum sem best eru búnir og af þeim starfsmönnum sem eru í bestri þjálfun á hverjum tíma. Þeim aðstæðum er ekki hægt að halda uppi hvar sem er á landinu, það er algjörlega ljóst.

Ég get algjörlega tekið undir það að auðvitað hefði átt að vera miklu meira samráð við starfsmenn og forstöðumenn stofnana og íbúa á þeim svæðum þar sem fara á í niðurskurð og ég fagna því vissulega að heilbrigðisráðuneytið er nú í slíku úthlaupi. Vonandi leiðir það til þess að menn geti á einhverjum stöðum mildað áhrifin en menn verða samt, eins og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir kallaði eftir áðan, að sjá einhverja heildarstefnu. Menn verða að sjá fyrir sér hvernig þeir vilja að þjónustan verði í framtíðinni. Sú þjónusta sem eðlilegt er að sé í dreifðari byggðum landsins er heilsugæsla, lyflækningar, endurhæfingarþjónusta og öldrunarþjónusta. Við getum ekki farið með skurðlækningar eða flóknari aðgerðir eða flóknari heilbrigðisþjónustu í hvert einasta þorp á landinu, við eigum frekar að fókusera á tvo tiltölulega sterka staði með öflugum heilsugæslusjúkrahúsum á stöðunum sem eru þar í nágrenni og á þeirra upptökusvæði.