139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

raforkulög.

60. mál
[15:16]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil lýsa yfir ánægju minni með það að hæstv. iðnaðarráðherra skuli hafa mælt fyrir þessu frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum. Það hefur reyndar verið dálítið þannig í störfum þingsins að það hafa ekki komið allt of mörg mál frá ríkisstjórninni og þess vegna er ágætt að fá mál sem þetta hér inn þannig að iðnaðarnefnd geti farið yfir það, enda er hér um stórmál að ræða, eins og hæstv. ráðherra kom inn á í ræðu sinni.

Ég ætla svo sem ekki að fara nákvæmlega yfir efni frumvarpsins. Ég veit að nefndin mun taka þetta mál til ítarlegrar skoðunar, en mig langar til að nefna eitt mál sem hefur brunnið og brennur mjög á ákveðnum þjóðfélagshópi og það eru heimili sem búa á hinum svokölluðu köldu svæðum og hafa ekki kost á heitu vatni til upphitunar húsa sinna og þurfa þess vegna að kaupa rafmagn, jafnvel olíu, til að standa undir jafnsjálfsögðum hlut og því að hita upp húsnæði sitt.

Sá dapri sannleikur liggur fyrir samkvæmt þessu fjárlagafrumvarpi að lagt er til að niðurgreiðsla til húshitunar, sem um langt árabil hefur verið há upphæð, verði um 960 millj. kr. á næsta ári. Ef sú upphæð sem greidd var árið 2005 hefði verið látin fylgja verðlagi ætti greiðsla til heimila á köldum svæðum að vera 1,5 milljarðar kr. Því er ljóst að verið er að ganga að heimilum á köldum svæðum. Við erum ekki að tala um eitt og eitt heimili, þetta eru heilu landsvæðin hringinn í kringum landið. Þetta eru 9% notenda og það eru u.þ.b. 100 þúsund heimili í landinu þannig að við erum kannski að tala um níu þúsund heimili þar sem verið er að skerða jafnsjálfsagðan hlut og það að hita húsin sín.

Við tölum á hátíðisdögum um jöfn lífskjör í landinu og að fólk eigi að hafa jöfn tækifæri óháð búsetu. Er þá sanngjarnt að við búum við það að ríkisstjórnin skuli hlutfallslega skerða framlög til greiðslna til jöfnunar á húshitunarkostnaði til þessara heimila, sérstaklega eins og árferðið er í dag? Ég þarf ekki að minna hæstv. ráðherra á það að við erum að tala um heimili til sveita og í dreifbýli landsins.

Ef við setjum þessa „byggðastefnu“ í eitthvert samhengi, þá hefur þessi ríkisstjórn, sem og ríkisstjórnir síðustu tveggja ára, líka verið iðin við að hækka flutningskostnað á þessu svæði, bæði með hækkun á álögum til atvinnurekstrar og hækkun á eldsneytisverði, skipti eftir skipti eftir skipti eftir skipti. Það vill svo til að í þessum dreifðu byggðum eru bílar og bifreiðar fætur þessa fólks. Fólk er ekkert endilega að labba á milli húsa. Það geta t.d. verið fleiri tugir kílómetra í skóla. (Gripið fram í.) Tugir kílómetra, hv. þm. Mörður Árnason. Ég held að rétt væri að við þingmenn Framsóknarflokksins mundum bjóða þeim ágæta þingmanni í bíltúr umhverfis landið og sýna honum aðstæður í mörgum samfélögum þar, en þær eru allt aðrar en þær sem við þekkjum hér á suðvesturhorni landsins. (MÁ: … 101.)

Ég kem hér upp til að ræða þetta brýna mál vegna þess að við höfum á undangengnum vikum og mánuðum verið að tala um hagsmuni heimilanna í landinu. Þessi níu þúsund heimili eru bara þó nokkuð stór hluti af heimilum í landinu. Ef ríkisstjórnin ætlar að halda áfram á þeirri vegferð sinni að auka hlutfallslegar álögur á þessi heimili, þá verður ekki við það unað. Ef jafnaðarmannaflokkur Íslands, Samfylkingin, vill kenna sig við jöfnuð og jöfn lífskjör í þessu landi, þá þurfa menn að breyta stefnunni í þessum efnum.

Menn hafa á síðustu árum markvisst verið að lækka hlutfallslega framlög til þeirra heimila sem hafa ekki aðgang að heitu vatni og þurfa að hita upp húsnæði sitt með rafmagni. Ég kem upp í þessa umræðu til þess m.a. að setja raforkumálin og umhverfi þeirra í samhengi við stöðu heimilanna í landinu.

Ég hvet hæstv. ráðherra til allra góðra verka í þeim efnum. Nú er það svo að fjárlagafrumvarpið er komið til þingsins. Við getum skoðað mjög alvarlega stöðu margra heimila akkúrat í þessu ljósi og við megum ekki undanskilja neitt í þessu.

Að allra síðustu, um leið og ég hnykki á þeirri spurningu gagnvart hæstv. ráðherra hvort hún ætli að beita sér fyrir því að lífskjör fólksins í landinu verði jöfnuð með þeim hætti að menn verji sambærilegum fjármunum árið 2011 í að styrkja þessi heimili og gert var árið 2005, en upphæðin hefur rýrnað að verðgildi yfir hálfan milljarð króna. Það þarf svo sem ekki mikinn stærðfræðing til að sjá að ef við deilum hálfum milljarði niður á níu þúsund heimili er það heilmikil upphæð á hverja einustu fjölskyldu sem býr á þessum svæðum. Eigum við ekki, hæstv. ráðherra, að jafna lífskjörin í landinu og veita fólki jöfn tækifæri á að búa þar sem það vill í þessu landi? Raforkuverð á þessum níu þúsund heimilum er gríðarlega hátt.

Ég man að í umræðum hér um daginn töluðu menn um stórkostlega hækkun gjaldskrár Orkuveitu Reykjavíkur sem var mjög slæmt mál sem margir hér á suðvesturhorninu töluðu eðlilega mikið um. En þessir níu þúsund notendur eru að greiða miklu, miklu hærra raforkuverð heldur en menn á suðvesturhorni landsins. Þannig að ég held að við séum að tala um mjög brýnt mál. Við erum að tala um sanngirnismál.

Af því að hæstv. iðnaðarráðherra er líka ráðherra byggðamála hlýtur henni að vera annt um það að ganga til liðs við okkur framsóknarmenn í þessu máli, að jafna þessi búsetuskilyrði, vegna þess að hér er um hreint og klárt mannréttindamál að ræða.