139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[15:47]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa framsögu sem var skýr og skörugleg eins og ráðherranum einum er lagið. Hæstv. ráðherra sagði að markmiðið með framlagningu þessa frumvarps væri að stuðla að sátt og minnka óvissu um þessi mál sem ekki hefur tekist til þessa, þ.e. að ná algjörri sátt í samfélaginu, það skal viðurkennt. Það er fínt, það er mjög gott að það markmið sé haft að leiðarljósi. Það vekur mér þó áhyggjur, og þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra, að mér finnst ferlið virka afskaplega flókið. Ég skal ekki gera lítið úr því að þetta geti verið flókinn málaflokkur en mér finnst, ef ég skoða bara bráðabirgðaákvæðið, ég ekki geta lesið úr þessu plaggi hvenær við megum vænta þess að vera komin með niðurstöðu.

Nú er mikið rætt um tafir á ýmsum framkvæmdum sem bíða og mér finnst kannski skorta á það í þessu samhengi hvaða tímafrest við erum að tala um, svo að ég spyr bara ráðherra beint út: Hvenær telur hún að búast megi við því að niðurstaða liggi fyrir og endaafurð verði komin í þessu samhengi?

Ég vil beina annarri spurningu til hæstv. ráðherra. Eins og segir í greinargerð á bls. 6 er lagt til að stjórnvöldum sé heimilt en ekki skylt að veita leyfi til orkuvinnslu vegna þeirra virkjunarkosta sem falla í nýtingarhluta áætlunarinnar — nýtingarhlutann, sem sagt það sem búið er að setja í þann flokk eigi að nýta. Þá vaknar sú spurning hvort ráðherra geti neitað að veita nýtingarleyfi á grundvelli þessa ákvæðis þegar (Forseti hringir.) fram kemur að það sé heimilt en ekki skylt.