139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[15:59]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vísa til greinargerðarinnar þar sem fram kemur, um þetta efni, að þessi svæði séu metin vegna þess að þau séu til viðmiðunar í rammaáætlunarferlinu og hjá faghópunum. Þessi friðlýstu svæði eru þar sannarlega metin vegna þess að verið er að nota þau til viðmiðunar við önnur svæði.

Ég geri ráð fyrir að iðnaðarnefnd fari rækilega yfir þetta atriði eins og önnur. Það er ekki ætlun okkar að koma í bakið á einum eða neinum en ég átta mig ekki á því hvaða svæða hv. þingmaður er að vísa til sem svona gæti verið ástatt um, ég þekki ekki til þeirra. En upplýsingum um friðlýsingar, yfirlitum, er haldið til haga hjá Umhverfisstofnun.