139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[16:03]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra svörin. Ég vil taka undir það með henni að vissulega skiptir það býsna miklu máli að þessi lög standist tímans tönn, að þau dugi lengur en í næstu tvo til þrjá virkjunarkosti sem við getum hugsað okkur núna.

Mig langar að beina annarri spurningu til hæstv. iðnaðarráðherra. Í lögunum er talað um nýtingu og nýtingarflokk. Það er talað um nýtingu og nýtingarflokk eins og það sé ekkert annað en virkjun, nýting. Langar að fá að heyra álit hæstv. ráðherra á þessu. Ég lít á náttúruvernd, og það að vernda land til þess að fólk geti skoðað það, sem mjög mikilvæga nýtingu á landi og þætti gaman að heyra álit ráðherra á því.