139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[16:19]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég fagna þeim orðum hv. þingmanns að hann hyggur, a.m.k. af sinni hálfu, að gott samstarf gæti skapast um þetta mál hér á þinginu og í þeirri nefnd sem hefur á því forræði.

Ég vil hins vegar segja um orðalag hv. þingmanns að hér er auðvitað ekki um að ræða einstök verkefni sem metin eru fram og aftur, heldur er verið að meta þau svæði sem menn hafa haft hugmyndir um að framkvæma á, það er verið að meta svæðin en ekki verkefnin sjálf.

Erindi mitt var þó einkum það að ég tók eftir því að nokkurn veginn í lok ræðu sinnar talaði hv. þingmaður um það að almannasamtök á landinu hefðu gagnrýnt þetta mikla stjórnkerfi skriffinnsku og málalenginga sem kæmi í veg fyrir framkvæmdir og atvinnu og að það drægi úr samkeppnishæfi landsins. Ef það gerir það og þingmaðurinn er sammála þeirri gagnrýni sem hann formaði svo, gagnvart hvaða löndum dregur úr samkeppnishæfinu? Hvaða lönd eru það sem stæðu framar vegna þess að það væri auðveldara að komast í gegnum stjórnkerfið og skriffinnskuna þar? Hvaða lönd eru það? Eru það grannlönd okkar? Eru það lönd í fjarlægum álfum? Hver eru samkeppnislönd okkar á þessu sviði og hvernig er skriffinnsku og regluverki þar háttað?