139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[16:25]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að þetta frumvarp sem við ræðum hér geti orðið til þess að þetta ferli verði hraðvirkara en það hefur verið hjá okkur þannig að við getum mætt beiðnum og kröfum þeirra sem um þessi mál fjalla fyrir okkar hönd á erlendum vettvangi og mætt kröfum aðila vinnumarkaðarins um það að samkeppnishæfi landsins aukist á þessum vettvangi. Það er alveg ljóst að við þurfum að taka tillit til þeirra sjónarmiða. Ég er ekki viss um að við höfum verið að gera það með þeim aukna fresti sem umhverfisráðherra var til að mynda veittur hér á síðasta þingi. Ég er ekki viss um að við höfum verið að gera það þegar framkvæmdir norður í Þingeyjarsýslum voru settar í sameiginlegt mat sem hefur tafið allt ferli þar um rúm tvö ár, eins mikilvægt og það væri okkur nú að hafa það í gangi.

Þingeyjarsýslurnar eru eina svæðið þar sem Landsvirkjun getur af einhverju viti rætt við væntanlega orkukaupendur með atvinnuuppbyggingu í huga vegna þess að aðrir virkjunarkostir eins og t.d. á Suðurlandi, eins og Neðri-Þjórsá, eru allir strand. Þar eru skipulagsmál sem er í raun búið að afgreiða af hálfu heimamanna. Þar er mikil og víðtæk sátt meðal heimamanna um í hvaða ferli málið skuli fara. (Gripið fram í.) Það endurspeglaðist vel í síðustu sveitarstjórnarkosningum hversu víðtæk sú sátt er. En hæstv. umhverfisráðherra hefur kosið að beita sér með þeim hætti að enn er verið að reyna að drepa málum á dreif.

Það er þetta sem ég á við. Við verðum, hvort sem við erum fylgjandi nýtingu eða verndun á þessu sviði, að feta þessa fínu línu, við verðum að reyna að feta hana saman og taka tillit til þeirra sjónarmiða sem uppi eru og þeirra (Forseti hringir.) vinnureglna sem eru í gangi.