139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[16:45]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aldrei fór það svo að við hæstv. ráðherra yrðum ekki sammála um eitthvað. Ég tek undir sjónarmiðin sem hæstv. ráðherra setur fram varðandi það hvernig við vinnum að náttúruverndaráætlun. Ein ástæða þess að ég var ekki fylgjandi áætluninni sem lögð var fram var einmitt skortur á samráði. Ég treysti því að hæstv. ráðherra láti það verða að veruleika að bæta verklag við gerð náttúruverndaráætlunar. Það er mikilvægt að við sköpum sem breiðasta sátt um slíka áætlun.

Varðandi það mál, fyrst umræðan er komin út í það, þá var alveg ljóst frá því að hún hófst í þinginu að það yrði ágreiningur um að ekki væri hægt að fallast á slíkar tillögur. Hins vegar hefði málið farið þann gang sem hæstv. ráðherra vísar til að verði verklagið í framtíðinni. Samráð við aðila sem þurfa að koma að þessum málum, heimamenn og fleiri. Ég tel að náttúruverndaráætlun fari í gegn með öllum greiddum atkvæðum einhvern tíma í framtíðinni.

Ég fagna því sérstaklega, hæstv. forseti, að ég og hæstv. ráðherra höfum fundið okkur sameiginlegt verkefni sem við getum væntanlega unnið að í sameiningu.