139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

mannvirki.

78. mál
[17:30]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla fyrst og fremst að ræða um frumvarpið sem lýtur að mannvirkjum. Ég fagna frumvarpinu sem löngu er orðið tímabært að endurskoða. Þar sem ég er arkitekt hef ég sérstakan áhuga á þessu máli. Ég mun einnig fjalla um starfsréttindi hönnuða eins og þau eru skýrð í frumvarpinu

Það er ýmislegt sem hefur farið úrskeiðis í uppbyggingu þéttbýlis hér á Íslandi síðustu áratugina og ýmsu er eflaust um að kenna; hönnuðum, verktökum, fjármálaöflum og einnig stjórnmálamönnum. Þessi þróun einskorðast alls ekki við Ísland, hún á sér upphaf í iðnbyltingunni og hefur tekið á sig ýmsar myndir síðan. Byggt hefur verið upp eftir hinu ameríska módeli bílaborgarinnar, kerfi flokkunar og aðgreiningar, gysin byggð með aðgreindum íbúðar-, verslunar- og iðnaðarhverfum sem eru tengd saman með allt of umfangsmiklum umferðarmannvirkjum. Afleiðingin er m.a. einsleitni, dýrir innviðir og óhagkvæmar almenningssamgöngur. Síðustu ár hefur verið vakning meðal fagmanna og almennings að snúa af þessari braut. Menn hafa horft aftur til hinnar hefðbundnu evrópsku borgar sem einkennist af þéttri og sjálfbærri byggð með blandaðri landnotkun þar sem almenningssamgöngur eru ekki einungis valkostur heldur fljótvirkari og ódýrari leið til að ferðast milli staða en á einkabíl. Innviðirnir eru þar að auki mun ódýrari. Þessi þróun er jákvæð og ber að ýta undir hana með öllum tiltækum ráðum.

Stór hluti umhverfisverndarumræðunnar á Íslandi síðustu ár hefur snúist um náttúruvernd og atvinnustefnu. Það er út af fyrir sig gott, en nú þurfum við að beina augum okkar að þéttbýlinu í ríkara mæli. Þar liggja ekki síst okkar tækifæri á sviði umhverfisverndar.

Það kom fram í máli hæstv. umhverfisráðherra að lögin um skipulag tækju á skipulagi og lögin um mannvirki tækju mest á tæknilegum hlutum bygginga. Að mínu mati er ekki hægt að slíta þetta í sundur. Eftir á að hyggja hefur það leitt okkur af leið að það er búið að strípa okkur af öllu sem heitir fagurfræði og vélvæða alla okkar hugsun.

Þess vegna vekur furðu að í markmiðum frumvarpsins er ekkert vikið að fagurfræði, varanleika, notagildi eða mikilvægi umhverfismótunar og góðrar byggingarlistar. Hér glatast tækifæri til að ýta undir þróun í átt að sjálfbæru og fallegu borgarsamfélagi. Þess vegna hvet ég hæstv. umhverfisráðherra til að gefa þessu atriði betri gaum.

Þá er ástæða til að staldra við 25. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um löggildingu hönnuða. Í a-lið kemur fram að arkitektar og byggingarfræðingar geti fengið löggildingu til að gera aðaluppdrætti, uppdrætti á skipulagi lóða og tilheyrandi deiliuppdrætti. Samhljóða ákvæði er í 49. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997. Athyglisvert er að skoða meðferð þingsins á ákvæðinu 1997. Í frumvarpinu sem þá var unnið í víðtæku samráði við fjölmarga kunnáttu- og hagsmunaaðila voru arkitektar einir nefndir í þessu ákvæði, þ.e. þeir gátu fengið löggildingu til að gera aðaluppdrætti, skipulagsuppdrætti og tilheyrandi deiliuppdrætti. byggingarfræðingar gátu hins vegar eins og byggingarverkfræðingar og byggingartæknifræðingar hlotið löggildingu til þess eftir fimm ára starfsreynslu.

Í meðförum umhverfisnefndar voru byggingarfræðingum hins vegar færð réttindi til jafns við arkitekta til að gera aðaluppdrætti og skipulag lóða án þess að það væri neitt rökstutt. Breytingin var ekki nefnd í nefndaráliti eða í ræðu formanns nefndarinnar um breytingartillöguna. Orðunum „og byggingarfræðingar“ var bætt inn án nokkurrar umræðu og var það niðurstaða þingsins. Niðurstaðan er svo tekin upp í frumvarpinu sem nú er lagt fyrir þingið.

Í 25. gr. frumvarpsins er nám í arkitektúr og byggingarfræði lagt að jöfnu. Byggingarverkfræðingar og byggingartæknifræðingar þurfa hins vegar fimm ára starfsreynslu eftir nám til að hljóta þessi réttindi. Þegar menn kynna sér nám í nefndum greinum er erfitt að sjá rök fyrir þessu fyrirkomulagi. Við setningu nýrra laga um mannvirki gefst tilefni til að skoða vandlega hvaða kröfur á að gera til hönnuða. Ég skora á hæstv. umhverfisráðherra og hv. þingmenn umhverfisnefndar að gera það en láta þetta ákvæði ekki renna í gegn aftur óskoðað.

Nám í byggingarfræði er prýðilegt nám, þrjú og hálft ár, og telst að því loknu fullnaðarpróf. Þar er fjallað um mannvirkjahönnun, en ekki síður lögð áhersla á verklegar framkvæmdir, stjórnun þeirra og eftirlits. Á dönsku nefnist þetta nám „bygningskonstruktør“. Nám í arkitektúr skiptist í þriggja ára BA-nám og mastersnám, alls fimm ár. Námið er fyrst og fremst hönnunarmiðað með áherslu á mannvirkjahönnun, en einnig byggingarlistasögu, byggingartækni og borgarskipulag. Miðað hefur verið við að menn öðlist ekki rétt til að leggja fram uppdrætti fyrr en að loknu mastersnámi.

Í 26. gr. frumvarpsins er vísað til laga nr. 8/1996, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum. Ég tel fulla ástæðu til að skoða ákvæði þeirra laga í samhengi við þetta mál. Lögin taka m.a. til verkfræðinga, tæknifræðinga, arkitekta og byggingarfræðinga. Í 3. gr. þeirra segir að engum megi veita leyfi til að nota umrædd starfsheiti nema hann hafi lokið fullnaðarprófi í viðkomandi starfsgrein. Fagfélögum starfsgreinanna er svo falið að setja reglur um hvaða nám teljist leiða til fullnaðarprófs í viðkomandi starfsgrein.

Ef jafna ætti stöðu arkitekta og byggingarfræðinga gæti arkitektafélagið líka ákveðið að BA-próf teldist fullnaðarpróf og menn geti þar með öðlast rétt til að leggja fyrir aðaluppdrætti.

Hins vegar hlýtur að vera æskilegra að reyna fremur að gera ríkari kröfur og skilgreina í lögum hvaða próf telst fullnaðarpróf í þessum skilningi eins og t.d. er gert í grunnskólalögum og lögum um lögmenn.

Ég skora á hæstv. umhverfisráðherra og nefndina að skoða þessi mál sérstaklega, bæði ákvæði 25. og 26. gr. frumvarpsins og skýra lög um löggildingu þessara starfsheita þannig að það sé ekki á valdi fagfélaga að skera úr um hvaða kröfur á að gera.

Ég er einnig hugsi yfir 15. gr. frumvarpsins sem fjallar um ábyrgð eiganda mannvirkis. Þar segir í 1. mgr., með leyfi forseta:

„Eigandi ber ábyrgð á því að við hönnun, byggingu og rekstur mannvirkis sé farið að kröfum laga þessara og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra.“

Þetta er nýmæli ef að lögum verður. Ég held að ástæða sé til að farið verði vel yfir þetta atriði við meðferð málsins.

Í athugasemd við 15. gr. frumvarpsins segir að þetta skuli vera meginregla, þ.e. að eigandi beri ábyrgð á að farið sé eftir settum lögum og reglum.

Í 23. gr. kemur þó fram að hönnuður beri ábyrgð á því gagnvart eiganda mannvirkis að hönnun sé faglega unnin og mannvirki standist þær kröfur sem gerðar eru í lögum og reglugerðum.

Í 29. gr. er svo fjallað um ábyrgð byggingarstjóra.

Mér finnst rétt að skoða 15. gr. sérstaklega og hvort rétt sé að fella ábyrgð á eigendur húsa á þeim hlutum sem þar eru nefndir. Vissulega eru eigendur í einhverjum tilfellum byggingafyrirtæki, en í mörgum tilfellum eru þetta einstaklingar sem ekki kunna skil á húsbyggingum. Mér þykir vafasamt að fella ábyrgð á hendur slíkum aðilum. Þeir eiga að geta lagt traust sitt á þá sem hafa menntun og eiga að hafa þekkingu til að sjá til þess að farið sé að settum lögum og reglum og vanda til verka. Þrátt fyrir ákvæði um ábyrgð hönnuða og byggingarstjóra er hætt við að þeir geti litið svo á að með ákvæðinu sem sagt er fela í sér meginreglu, sé dregið úr ábyrgð þeirra.

Að lokum hefði mér þótt æskilegra ef viðleitni hefði verið ríkari til neytendaverndar í lögunum, sérstaklega þegar kemur að íbúðarhúsnæði. Íbúðarhúsnæði hefur á síðustu áratugum verið helsta fjárfesting hverrar fjölskyldu og drjúgur hluti allra ráðstöfunartekna farið í kostnað sem því tengist og því miður gott betur hjá mörgum. Nú má vera að hin efnalega kollsteypa fækki eitthvað þeim sem fjárfesta í eigin húsnæði, en það er í sjálfu sér ómögulegt að gefa sér það. Ein hugmynd er að flokka íbúðarhúsnæði upp í mismunandi flokka, a-, b-, c- og d-flokk, allt eftir því hvaða kröfu það uppfyllir. Nánar er tilgreint í reglugerð hverju sinni hvaða þættir hefðu áhrif á hvaða flokk viðkomandi íbúð lenti í. Það getur ýmislegt komið til greina svo sem efni, uppbygging og stærðir. Er bílakjallari í húsinu? Er lyfta? Eru svalir lokanlegar og ýmislegt fleira. Að sjálfsögðu finnast svo huglægir þættir eins og t.d. útsýni og staðsetning sem erfitt er að meta inn í slíka flokkun. En hugsunin með slíkri flokkun er tvíþætt:

a. Að gera mönnum kleift að byggja fjölbreyttari íbúðir, einnig litlar og ódýrar.

b. Að tryggja kaupendum íbúðar ríkari vernd.

Í dag er t.d. óheimilt að hafa þvottavél inni í eldhúsi eða á baðherbergjum og sleppa þvottahúsi. Þvottahús innan íbúðar skal vera þrír fermetrar, hvort sem um er að ræða 45 fermetra íbúð eða 350 fermetra einbýlishús. Þetta á við um fleiri ákvæði. Í ljósi byggingarkostnaðar íbúðarhúsnæðis sem er u.þ.b. 250 þúsund á fermetra getur þetta haft veruleg áhrif. Aðalatriðið er að öllum sé ljóst hvers lags íbúð þeir eru að kaupa. Fyrsta íbúð er t.d. ekki alltaf hugsuð til frambúðar. Það er ýmislegt sem hægt er að lifa án ef það gerir þér kleift að eignast þak yfir höfuðið. Á hinn bóginn þegar íbúð gengur kaupum og sölum er fermetrastærð ráðandi þáttur í verði. Við tökum dæmi af tveimur 90 fermetra íbúðum á þriðju hæð í fjölbýlishúsi í sama hverfi. Íbúð A er í lyftuhúsi með bílakjallara. Yfirborðsefni húss er viðhaldslítið og svalir með lokunarkerfi. Þetta hús selst á umtalsvert hærra verði en íbúð B sem er án lyftu og bílakjallara, auk þess klædd viðhaldsfrekum efnum með opnum svölum. Þessar íbúðir fara síðan í sölu eftir fimm ár og eru þá báðar orðnar glæsilegar 90 fermetra íbúðir á besta stað og seljast á svipuðu verði.

Í ljósi þeirra fjármuna sem meðal-Íslendingur eyðir til húsnæðiskaupa yfir ævina er ekki óeðlilegt að gerðar séu a.m.k. jafnríkar kröfur til flokkunar og gæðaeftirlits íbúðarhúsnæðis og gerðar eru til sölu á lambakjöti svo dæmi sé tekið.