139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

mannvirki.

78. mál
[17:40]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir greinargóða ræðu sem ber vott um mikinn skilning og þekkingu á þessu sviði.

Mig langar að nefna nokkur atriði sem komu fram í ræðu hans. Í fyrsta lagi það sem varðar ákvæði um starfsréttindi. Þannig var að nefndin sem vann að endurskoðuninni var sammála um að breytingar varðandi starfsréttindi ættu að bíða til næstu endurskoðunar lagaumhverfisins.

Varðandi almenna umræðu um að slíta í sundur skipulag og mannvirki, þá deili ég þessum vangaveltum að hluta til með þingmanninum. Ég verð að segja það. Sérstaklega þegar um er að ræða sjálfbæra þróun byggðar þá hangir þetta allt saman. Þegar þingmaðurinn nefnir fagurfræði, gæði og þvíumlíkt, er það svo að samhliða þessari vinnu hefur farið fram víðtæk vinna varðandi endurskoðun byggingarreglugerðar. Hún er að mínu mati eða ætti að verða í fararbroddi. Hún ætti að verða ein framsæknasta byggingarreglugerð sem við höfum á Norðurlöndum hvað varðar sjálfbæra þróun. Það er markmiðið. Í byggingarreglugerðinni eru til að mynda kaflar sem koma inn á þessi mál sem þingmaðurinn nefnir.

Mig langar líka að nefna 4. kafla byggingarreglugerðarinnar þar sem rætt er um þætti sem varða neytendaverndina. Það er sem sé um hönnuði, byggingarstjóra og iðnmeistara. Í þeim kafla er lögð sérstök áhersla á gagnsæi og skilvirka stjórnsýslu, að fullnægjandi ábyrgð fagaðila sé ávallt tryggð og neytendavernd virk, eins og segir í textanum, enda snýst þetta með aðkomu eigandans (Forseti hringir.) um það að eigandinn sinnir ábyrgðarskyldunni með því að ráða (Forseti hringir.) fagfólk til starfa sem síðan er ábyrgt gagnvart þeim hinum sama.