139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

mannvirki.

78. mál
[17:49]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þetta hefur verið þörf umræða um frumvörpin tvö. Við sem erum hér úr umhverfisnefnd höfum haft hag af því að heyra ýmis sjónarmið, þó að ekki margir hafi tekið til máls. Þessi frumvörp eru, eins og fram hefur komið, flutt í annað sinn, eða sennilega í fjórða eða fimmta sinn, ég man það ekki, en nánast óbreytt frá fyrra þingi. Eins og hv. síðasti ræðumaður rakti fjallaði umhverfisnefnd um öll frumvörpin í september á síðasta þingi, afgreiddi eitt þeirra í þessum pakka sem segja mætti að þau séu í, þ.e. skipulagslagafrumvarpið sem orðið er að lögum en tekur ekki gildi fyrr en um áramót, og strengdi þess heit að klára þessa vinnu nú í haust í tæka tíð til að þau gætu öll tekið gildi á sama tíma því það verða þau að gera, öll eða ekkert.

Við ræddum þetta svo aftur í umhverfisnefnd á fundi sem haldinn var í gærmorgun. Þar voru þessar heitstrengingar endurteknar þó að við lofum auðvitað ekki að frumvörpin verði nákvæmlega eins og hæstv. ráðherrann leggur þau fram, enda stendur það í sjálfu sér ekki til, því ég hef þegar haft spurnir af ákveðnum breytingum sem ráðherrann eða a.m.k. starfsmenn hans hafa beint til okkar, en það var samt talið best að leggja þetta fram nánast óbreytt nema með villuleiðréttingum til að sem mest samfella skapaðist í vinnu nefndarinnar.

Ég ætla ekki að fara í einstök atriði, a.m.k. ekki mörg, en vil segja, vegna þess hvernig á þessu stendur, vegna þess sem ég hef rakið og vegna þess slyðruorðs sem við ætlum nú að reka af okkur á Alþingi í þessum efnum, fyrstu frumvörpin komu að ég held fram í ráðherratíð Jónínu Bjartmarz árið 2006 eða 2007 og Alþingi hefur síðan ekki haft það af að klára þessar brýnu umbætur, að þá verður kannski ekki allt gert sem menn vilja í þessum umgangi. Ég fagna þeim skilningi hæstv. umhverfisráðherra að hér sé þrátt fyrir allt einungis um að ræða lið í endurskoðun þessara frumvarpa og að næsti þáttur í þeirri endurskoðun gæti t.d. orðið heildaryfirlit og breytingar á málefnum stétta, löggildingu o.s.frv. sem hv. þingmaður Logi Már Einarsson talaði um í ágætri ræðu, þar sem mér fannst nú kannski merkilegast fyrir sjálfan mig að hlusta á þann kafla sem sneri að ýmsum gerðum íbúðarhúsnæðis og hugsanlegri flokkun þeirra og þeirri þörf sem er á aukinni neytendavernd á því sviði.

Reyndar held ég að þetta frumvarp um ný mannvirkjalög sé skref áfram í neytendavernd sem, eins og hv. þingmaður sagði og ráðherrann raunar líka, ætti hvergi að vera meiri í íslenskri löggjöf en einmitt á þessu sviði. Um er að ræða þá eign og þá ákvörðun sem mikilvægust er fyrir flestar fjölskyldur í landinu og er okkur ákaflega ljós núna þegar íbúðarhúsnæði fjölda fólks er í uppnámi og hefur það skapað miklar bylgjur og jafnvel óeirðir í landinu af eðlilegum ástæðum. Kannski er ein af orsökunum sú að sú vernd sem löggjafinn átti að veita hefur ekki verið veitt, ekki aðeins gagnvart bönkunum, heldur líka gagnvart gæðum húsnæðisins og því öryggi í viðskiptum sem almenningur á að geta gengið að, ekki síst þegar um er að ræða þá ákvörðun sem varla verður tekin stærri í lífi venjulegrar fjölskyldu heldur en hvernig hún skipuleggur húsnæðismál sín.

Ég vil svo segja það í lokin í tilefni af því sem hv. þm. Birgir Ármannsson minntist á og er alveg rétt hjá honum að fjárhagslegar forsendur frumvarpsins hafa breyst, sem lesa má um í umfjöllun fjárlagaskrifstofunnar. Eins og ég skil þetta, þá er í þessu frumvarpi um það val að ræða að áður átti ríkissjóður held ég að hagnast á þessu, hvort það var um 190 milljónir á ári eða hvernig það nú var, en þá var gert ráð fyrir breytingu á gjaldheimtunni sem mér sýnist hafa verið fallið frá núna þannig að gagnvart ríkissjóði kemur þetta út sem 100 millj. kr. í mínus, en væntanlega miðað við ástandið í fyrra frumvarpi þá hagnast neytandinn á því eða þeir sem standa að byggingunum.

Í heildina litið er þetta auðvitað þannig að skattborgararnir tapa a.m.k. í krónum þótt þeir fái kannski betra skipulag og aukna neytendavernd í staðinn, en þetta er að sjálfsögðu eitt af því sem við þurfum að kanna vel. Í þeirri von að þessari umræðu ljúki og málið verði afgreitt til nefndarinnar hafa verið gerðar ráðstafanir til að fá þann starfsmann hæstv. umhverfisráðherra sem best kann skil á þessu á fund umhverfisnefndar sem á að halda á morgun, þannig að við nánast hefjum umræðu um frumvörpin með því að fara í þennan þátt.