139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

heilbrigðisþjónusta í heimabyggð.

41. mál
[18:12]
Horfa

Flm. (Ásmundur Einar Daðason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður beindi til mín tveimur spurningum. Annars vegar hvað varðar kostnað við hugsanlegar stjórnir heilbrigðisstofnana. Auðvitað er það eitthvað sem þarf bara að leysa eða ræða í tengslum við þetta mál og ég hygg að hv. heilbrigðisnefnd geri það, en þó dreg ég verulega í efa að sá kostnaður verði mjög mikill. Við sjáum það einfaldlega að alla vega víða úti á landi bera menn mikinn hug til sinna heilbrigðisstofnana og telja þær þjóna gríðarlega miklu hlutverki. Við sjáum það að mikið af þeim tækjum og tólum sem þar eru hafa verið keypt einmitt fyrir fjáröflun í heimahéraði, fyrir sjálboðastarf og annað því um líkt, þannig að ég hygg að þetta þurfi ekki að vera mjög kostnaðaraukandi og menn muni í miklum mæli gera þetta í sjálfboðastarfi eða öðru því um líku.

Hvað varðar þessar stjórnir þá held ég tvímælalaust að heimafólk eigi að taka þátt í stefnumótun á sinni heilbrigðisstofnun en ekki einungis að leysa þau vandamál sem upp koma í nútíðinni. Gríðarlega mikilvægt er að stjórnir heilbrigðisstofnana séu með frá fyrstu mínútu í öllum ákvarðanatökum og taki þátt í því að móta stefnu sinna heilbrigðisstofnana til framtíðar en séu ekki áhorfendur að þeirri atburðarás sem kannski er þegar búið að ákveða í bakherbergjum í Reykjavík.