139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

þingsköp Alþingis.

43. mál
[18:27]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna þessari umræðu og ég fagna frumvarpinu sem hér hefur verið lagt fram þar sem gert er ráð fyrir því að ráðherrar eigi þess kost að segja af sér þingmennsku tímabundið meðan þeir gegna ráðherrastörfum. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það sé æskilegt að ráðherrar séu ekki þingmenn á sama tíma og þeir sinna veigamiklu trúnaðarhlutverki fyrir framkvæmdarvaldið.

Þessi umræða um fækkun þingmanna og fækkun ráðherra finnst mér vera allt önnur umræða og ég vil gjalda varhuga við því að við séum að ræða þetta mál á þeirri forsendu að nú þurfi að spara peninga og þá sé best að fækka ráðherrum og best að fækka þingmönnum. Ég er ekki viss um að það væri lýðræðinu beinlínis til góðs að fækka mjög því mannvali sem situr hér á löggjafarsamkundunni til dæmis. Einn af kostunum sem ég sé við það að ráðherrar geti sagt af sér þingmennsku er sá að það mundi þá fjölga í hópi þingmanna og störf dreifast á fleiri þingmenn. Annríki okkar þingmanna og tímaskortur er nægur nú þegar þó að við förum kannski ekki að velta þeim byrðum yfir á enn færri herðar. Það er nógu erfitt að láta vinnudaginn ná saman og vinnuvikuna, það er allt önnur umræða sem ég vil ekki ræða í þessu samhengi.

Ég fagna hins vegar þessari umræðu og tel að hún snúist um ákveðin grundvallarsjónarmið um aðskilnað og verkaskiptingu löggjafarvalds og framkvæmdarvalds.