139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

þingsköp Alþingis.

43. mál
[18:29]
Horfa

Flm. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka undir meginefni tillögunnar sem er aðskilnaður framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Tillagan er alls ekki flutt til að fækka ráðherrum eða fækka þingmönnum, ég svaraði því áðan. Ég hef heldur ekki áhyggjur af því að stundum væri kannski einum stjórnarliða fleira í salnum vegna þess að það væri einn ráðherra og svo varamennirnir sem væru í þessu, en ég hef engar áhyggjur af því.

Ég er hins vegar alveg á því að það má gjarnan styrkja stjórnarandstöðuna, ekki út af þessu, heldur má gjarnan styrkja hana. Ég held að það sé Alþingi til góðs að hafa sterka stjórnarandstöðu. Það er alveg ljóst að stjórnin er með allt Stjórnarráðið á bak við sig og hefur betri aðstöðu en stjórnarandstaðan, það er bara staðreynd.

Svo er það líka annað mál að ég tel að færri en 63 þingmenn geti sinnt löggjafarstarfinu. Það er mín skoðun. Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir hefur aðra skoðun og þá er það bara svoleiðis. Ég tel líka að færri ráðherrar en tíu geti sinnt framkvæmdarvaldinu ef þeir þurfa ekki að gegna hér þingmannsstörfum líka eins og er í dag. Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir getur verið á öðru máli, það er bara svo.