139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

þingsköp Alþingis.

43. mál
[18:31]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Að sjálfsögðu er það alveg ljóst að við erum ekki sammála um þetta. Það er kostur þess að búa í lýðræðisríki að fólk þarf ekki að vera sammála um alla skapaða hluti.

Ég er þó sammála þingmanninum um grundvallaratriði þessarar tillögu og ég er sammála þingmanninum um mikilvægi stjórnarandstöðu í lýðræðislegri umræðu. Nú standa fyrir dyrum breytingar á þingskapalögum, frekari breytingar, sem væntanlega munu styrkja stöðu stjórnarandstöðunnar. Maður væntir þess að þær breytingar geti orðið til góðs en auðvitað veldur hver á heldur. Umræðuhefðir sem skapast hafa hér í þinginu breytast þá vonandi í takt við þær breytingar sem gerðar verða á þingskapalögum en það er ekki alveg gefið að svo verði.

Það sem ég hef áhyggjur af í sambandi við fjölda þingmanna í tengslum við þessa umræðu er einfaldlega ákveðinn lýðræðishalli sem ég held að við þurfum að vara okkur á. Auðvitað geta færri þingmenn sinnt löggjafarstörfum, þrír þingmenn gætu það, en það væri ekki lýðræðislegt. Einn ráðherra gæti sjálfsagt sinnt framkvæmdarvaldinu en það yrði kannski ekki mjög vönduð stjórnsýsla.

Ég held að við verðum að ræða þetta aðeins öðruvísi því að af þeirri reynslu sem ég hef fengið, alla vega af störfum hér innan þings, sýnist mér að við eigum fullt í fangi með að vanda okkur og vinna vel á þeim tíma sem okkur er úthlutaður með þeim mannfjölda sem við höfum hér innan þingsins og með þeim verkefnum sem okkur eru falin. En það er svo sem allt mögulegt. Ég legg hins vegar mest upp úr því að við erum sammála um að markmiðið hlýtur að vera það að styrkja störf þingsins og gera stjórnsýsluna sem heild skilvirkari og lýðræðislegri.