139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

44. mál
[18:54]
Horfa

Flm. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er vissulega rétt sem hv. þingmaður Björn Valur Gíslason bendir á, og ég nefndi reyndar í greinargerð með þingsályktunartillögunni, að það liggur allmikil vinna að baki þeirri skýrslu sem nú hefur verið lögð inn til sjávarútvegsráðherra, vinna svokallaðrar viðræðunefndar eða sáttanefndar í sjávarútvegi. Í þeirri skýrslu er tekin afstaða til velflestra þeirra álitamála sem upp hafa komið í þessari umræðu.

Er hv. þingmaðurinn hv. að segja að þar með sé málinu lokið? Nú veit ég að hv. þingmaður hefur ásamt formanni nefndarinnar skrifað sjávarútvegsráðherra bréf og óskað sérstaklega eftir því að skipaður verði pólitískur starfshópur til þess að vinna málið áfram. Þingmaðurinn virðist því ekki standa í þeirri meiningu að málinu sé fullkomlega lokið þó að skýrsla nefndarinnar sé auðvitað mikilvægur áfangi í þeirri vegferð.

Ég er ekki heldur sannfærð um að sáttin sé svo mikil eða að hún sé fullkomlega til staðar því að umræðan og viðbrögðin við niðurstöðu skýrslunnar benda ekki til að sáttin í samfélaginu sé fullkomin um þetta mál.

Hitt er annað mál að skýrslan hlýtur að vera veigamikill áfangi inn í þeirri vinnu sem er fram undan, þ.e. lokahnykkur málsins, því að skýrslan skilaði ekki frumvarpi. Hún skilaði áliti en ekki frumvarpi. Frumvarpið er óskrifað. Það er á grundvelli þess að frumvarpið hefur enn ekki verið lagt fram sem þingsályktunartillagan sem hér er flutt gengur út frá því að ríkisstjórninni verði falið að orða þær spurningar sem máli skipta (Forseti hringir.) í þessu samhengi.