139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

44. mál
[18:58]
Horfa

Flm. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þá er það sameiginlegur skilningur okkar, mín og hv. þingmanns Björns Vals Gíslasonar, að vinnunni sé ekki lokið. Vinnunni þarf að halda áfram. Það þarf að taka lokahnykk í þessu máli.

Samráðinu er kannski lokið og má líta á að svo sé eftir þá margra mánaða vinnu sem liggur að baki skýrslunni, en sáttinni við þjóðina var líka heitið. Á þá sátt verður ekki fullkomlega reynt fyrr en fram er komið frumvarp með einhverjum meginatriðum sem hægt er að bera undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það mundi ég telja að væri hið eðlilega framhald þessa máls og í samræmi við það fyrirheit sem stjórnvöld gáfu við myndun síðustu ríkisstjórnar og stjórnarflokkarnir báðir fyrir síðustu kosningar, að þetta mál yrði leyst í sátt. Og sátt getur aldrei orðið nema hún sé altæk og nái til þjóðarinnar allrar, að svo miklu leyti sem það er hægt í þjóðaratkvæðagreiðslu.