139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

44. mál
[19:01]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, það náðist vissulega sátt í þeirri nefnd en hún er að mínu mati fyrst og fremst nefnd hagsmunaaðila. Þar vantaði stóra hagsmunaaðilann sem er almenningur, fólkið í landinu. Ég veit alveg að þarna voru fulltrúar verkalýðsfélaga, en það er bara því miður ekki alltaf þannig að þeir fulltrúar sem eru skipaðir í hópa af þessu tagi nái hinni miklu breidd sem er í samfélaginu. Ég veit að ég get ekki sagt um það alveg örugglega en ég hef á tilfinningunni að sú sátt sem náðist í þessari nefnd sé sátt þeirra sem hafa mesta fjárhagslega hagsmuni í dag af óbreyttu fiskveiðistjórnarkerfi. Mörg sjónarmið koma fram í þessari skýrslu og ekki eru allir á eitt sáttir þar. Það er vísað í hina og þessa áttina eins og vera ber þegar hlutir eru skoðaðir svona.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Björn Val Gíslason: Þegar hópurinn sem á nú að halda áfram hefur komist að niðurstöðu og tilbúið er frumvarp um framtíðartilhögun, gæti hann sæst á að það frumvarp yrði borið undir þjóðina eins og það lægi þá fyrir?