139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

44. mál
[19:19]
Horfa

Flm. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er enginn ágreiningur um það við hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson að það þarf að eyða óvissunni. Til þess er farið í þessa vegferð, að eyða óvissunni. Deilurnar um kvótakerfið hafa staðið í áratugi eða allar götur frá því að þessu kerfi var komið á, illu heilli. Ástæðan eru afleiðingar sem við þekkjum og landsbyggðarþingmenn eiga að þekkja öðrum betur, byggðaröskun og ýmislegt ójafnræði og óréttlæti sem af þessu kerfi hefur hlotist. Það er því engan veginn hægt að bera það saman við þær aðgerðir sem við stöndum núna frammi fyrir í tímabundnum niðurskurðaraðgerðum í velferðarkerfinu, að ræða þörfina á þjóðaratkvæðagreiðslu í því samhengi. Svo vil ég minna hv. þingmann á að spurningin um aðild okkar að Evrópusambandinu mun verða lögð fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ástæðan fyrir því að við teljum tilefni til að fara með þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu er 20 ára rauna- og deilusaga þessa máls. Það er náttúrlega ekki rétt heldur að við séum að tala um að láta spyrja þjóðina um bara eitthvað. Tillagan gengur út á það að fela ríkisstjórninni, ekki þingnefnd heldur ríkisstjórninni, að undirbúa þessa atkvæðagreiðslu og orða þær spurningar sem máli skipta og það gef ég mér að muni að sjálfsögðu gerast að framlögðu frumvarpi um endanlegt fyrirkomulag.

Síðan aðeins að lokum varðandi þá útfærslu samningsleiðarinnar sem kynnt hefur verið í skýrslu viðræðunefndarinnar, það er nú ekki eins og hún sé svo nákvæm niðurstaða að byggja á. Það ætti þingmaðurinn að þekkja hafandi lesið þá leið að hún er ekki nákvæm niðurstaða að byggja á. Hún er þvert á móti (Forseti hringir.) verulega óljós tillaga sett fram á tugum blaðsíðna og ekki aðgengileg til að hægt sé að skrifa upp úr henni frumvarp eins og hún liggur fyrir að svo stöddu.