139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

44. mál
[19:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni. Í rauninni skipta allir Íslendingar miklu máli.

Ég þakka fyrir ágæta útskýringu á meiningu hv. þingmanns í þessu máli. Ég fullyrði að ég hafi náð þessu núna, ég var reyndar búinn að því. Mig langar að velta upp, fyrirgefið frú forseti, ég átta mig á því núna að hv. þingmaður kemst ekki í andsvar við mig þannig að ég ætla að umorða það sem ég ætla að segja. Við þingmenn hljótum að velta fyrir okkur, ef þetta er niðurstaðan eða rökin sem við höfum uppi varðandi þingmál, að mál eins og fjárlagafrumvarpið sem sett er fram með þeim hætti sem hér er gert sem er beinlínis stefnubreyting, grundvallarbreyting á t.d. heilbrigðisþjónustu í landinu, þá hljótum við að velta því fyrir okkur, frú forseti, hvort mál eigi ekki að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hljótum við ekki að ætlast til þess að fjárlagafrumvarp sem umturnar lífi stórs hluta þjóðarinnar fari í þjóðaratkvæði ef þetta á að vera viðmið?