139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

Bankasýslan.

[10:35]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er í fyrsta lagi þannig að Bankasýslan fer með hlut í Landsbankanum, hún er með minni hluta eignarhlut ríkisins í bæði Arion- og Íslandsbanka og er núna að taka við eignarhlutum ríkisins í sparisjóðum. Í aðalatriðum er verkefni hennar því eins og gengið var út frá að það yrði þó að eignarhlutföllin í bönkunum séu önnur. Bankasýslan tilnefnir síðan fjóra menn af fimm í stjórn Landsbankans og einn stjórnarmann í hvorn hinna bankanna. Kostnaðurinn er reyndar ekki 100 millj. eins og hv. þingmaður nefndi, mig minnir að það séu milli 50 og 60 millj. sem Bankasýslan hefur á fjárlögum. Þeir vildu örugglega hafa 100 millj. kr. en reynt hefur verið að gæta aðhalds þar eins og annars staðar.

Í aðalatriðum held ég að það fyrirkomulag sem sett var upp hafi gengið vel. Það verður ekki bæði sleppt og haldið, eins og mér finnst hv. þingmaður og reyndar margir fleiri stundum óska sér. Það varð niðurstaða Alþingis að skilja með mjög skýrum og afdráttarlausum hætti á milli stjórnmálanna og þess hvernig farið væri með eignarhaldið í fjármálastofnunum sem ríkið ætti aðild að. Það er einfaldlega þannig að Bankasýslan er algerlega sjálfstæð í störfum sínum og ráðherra er samkvæmt lögum bannað að hafa afskipti af þeim nema með tilteknum hætti sem er þá í formi skriflegra tilmæla sem Bankasýslan bregst við og þau samskipti eru síðan gerð opinber.

Sérstaklega er þó fjármálaráðherra með öllu bannað að hafa bein afskipti af starfsemi bankanna sem undir Bankasýsluna heyra. Það er mjög pósitíft tekið fram í lögunum og það liggur við að ég þurfi að leggja lykkju á leið mína ef ég sé bankastjóra einhvers banka á götu sem ríkið á í því að það gæti jaðrað við að vera brot á lögunum ef við ættum þar með okkur einhver samtöl. Auðvitað hittast menn stundum óformlega en svona er um þetta búið.

Síðan var sett upp eftirlit, (Forseti hringir.) eins og hv. þingmaður veit, með því að bankarnir fari að þeim verklagsreglum sem þeir hafa sett sér og samið hefur verið við þá um í gegnum samtök fjármálafyrirtækja. Það er umbúnaðurinn um þetta og fyrirkomulagið (Forseti hringir.) sem gengið hefur verið frá fyrst og fremst af Alþingi sjálfu.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur þingmenn til að virða tímamörk.)