139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

aðstoð við fátæka.

[10:45]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Þetta var svo sem ekkert öðruvísi svar en ég bjóst við. Ég lýsti eftir því frá hæstv. fjármálaráðherra sem æðsta yfirmanns fjármála almennings í landinu, ríkissjóðs, að gripið yrði til aðgerða til að aðstoða fólk sem á ekki fyrir mat. Ég frábið mér allar ræður um að það séu málefni sveitarfélaga og hjálparsamtaka. Það eru málefni allra landsmanna að hér ganga þúsundir manna um og eiga ekki fyrir mat fyrir fjölskyldur sínar. Allir sem komu til Fjölskylduhjálparinnar eru með fjölskyldu, þeir rétta fram miða sem segir hvað þeir eru með marga á framfæri sínu og fá poka til samræmis við það.

Það er ömurlegt að þurfa að hlusta á þessi svör og ég velti upp eftirmælum sem fræg eru um ráðherra í austurþýska sæluríkinu í myndinni Líf annarra: Að hugsa sér að fólk eins og þið skulið hafa stjórnað landinu.