139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

aðstoð við fátæka.

[10:46]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Hv. þingmaður verður að ráða orðum sínum og hvert hann sækir sér fyrirmyndir, ég ætla ekki að blanda mér í það og allra síst þegar rætt er um alvörumál af þessu tagi. Þá finnst mér ekki við hæfi að menn setji sig á háan hest, eins og hv. þingmaður gerði hér. (ÞSa: Svaraðu þá.) Menn verða þá að hafa á því efni að tala niður til annarra með þeim hætti sem hann gerði.

Ég talaði ekki um að þetta væri bara mál sveitarfélaga eða bara mál hjálparsamtaka. Ég nefndi að ríki og sveitarfélög, (MT: Hvað á að gera?) félagsmálayfirvöld og aðrir sem leggja þessum málum lið þyrftu auðvitað að taka höndum saman. Ég veit að þessir aðilar funduðu í sumar um það ástand sem kom upp þegar hjálparsamtökin hættu starfsemi tímabundið yfir sumarmánuðina. Menn hafa rætt um mikilvægi þess að fara í framfærslumat, að félagsaðstoð sveitarfélaganna sé greinilega ekki fullnægjandi miðað við núverandi ástand. Það er (Gripið fram í.) neðsta öryggisnetið sem á að vera til staðar. Ef menn hafa ekki (Forseti hringir.) tekjur úr bótakerfunum eða annars staðar frá er það að sjálfsögðu hlutverk sveitarfélaganna að sjá um að enginn svelti eða sé á götunni. Þannig er því skipað í okkar lögum, (Forseti hringir.) það er einfaldlega verið að benda á staðreynd í þeim efnum. Það þýðir ekki að ríkið eigi ekki að leggja sitt af mörkum eftir því sem mögulegt er í þessum efnum.