139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

álver á Bakka.

[11:02]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég sagði aldrei í þessari frétt að stóriðja væri væntanleg á Bakka. Ég sagði hins vegar að verkefnisstjórnin sem er að vinna að því að koma atvinnuuppbyggingu af stað á Norðausturlandi teldi að málið væri það langt komið að við þyrftum að fara að undirbúa samfélagið undir stórfellda atvinnuuppbyggingu. Það voru mín orð. Það er töluverður munur á stórfelldri atvinnuuppbyggingu annars vegar og stóriðju á Bakka hins vegar. Ég held að við þurfum öll að fara að lenda á jörðinni í þessu efni og hætta að tortryggja hvert annað svona, það er eins og hlustirnar heyri stundum annað en sagt er í þessum efnum.

Ástæðan fyrir því að ég sagði þetta er sú að sex verkefni komust í hóp A og B hjá verkefnisstjórninni fyrir norðan. Þau eru af fjölbreytilegri gerð og fleiri en sex aðilar hafa lýst áhuga á því að kaupa orkuna á þessu svæði. Þess vegna telur nefndin núna komið að þeim tíma að við þurfum að skipta með okkur verkum þar sem Landsvirkjun tekur að sér samningamál út af sölu á orkunni. Þá er auðvitað rétt að þessi álitaefni eru uppi þegar kemur að stóriðjunni eða þessum stóru verkefnum sem vilja mikla orku, eins og t.d. Alcoa og Bosai Mineral sem hefur líka verið í viðræðum við Landsvirkjun. Landsvirkjun treystir sér eingöngu til þess að afhenda ákveðið magn af orku sem er minna en þessir aðilar hafa óskað eftir, en þetta eru samningsatriði millum þessara aðila. Þetta er ekki eitthvað sem stjórnmálamenn semja um og við tökum ekki ákvörðun í þessum sal um hver framleiðslugeta svæðisins er eða á hvaða verði eigi að selja orkuna. Þess vegna skiptum við upp verkum, Landsvirkjun fer með samningamálin en við, stjórnmálamennirnir og fólkið á svæðinu, erum að undirbúa svæðið fyrir (Forseti hringir.) stórfellda atvinnuuppbyggingu á afar breiðum grunni. Til dæmis erum við að smíða ívilnanapakka.