139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

áform um breytingar á fiskveiðistjórnarlöggjöfinni.

[11:55]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það skýrist alltaf betur og betur fyrir mér það sem gamli bóndinn sem ég hitti norður í Skagafirði sagði við mig fyrir nokkru síðan. Hann sagði: Passaðu þig á að telja á þér puttana eftir að þú hefur tekið í höndina á hæstv. sjávarútvegsráðherra. Hann átti náttúrlega við það, virðulegi forseti, að það er ekki orð að marka það sem þessi maður segir eða gerir. Hann sest í stól hæstv. sjávarútvegsráðherra og boðar okkur það að hann ætli að sitja á sáttastóli, hann ætli að hafa víðtækt samráð við alla sem að málum koma og stofnar til þess sérstaka sáttanefnd sem allir stjórnmálaflokkar og allir hagsmunaaðilar eiga og áttu aðild að. Henni var stýrt af hv. þm. Guðbjarti Hannessyni.

Það tókst eftir mikla vinnu í þessari nefnd að ná víðtækri sátt af skynsemi þar sem farið var yfir allar hliðar málsins, farið yfir hörmulegar afleiðingar þess ef sú fyrningarleið sem var boðuð hefði verið farin algjörlega óbreytt. Menn lögðu á sig mikla vinnu. Hvað gerir síðan hæstv. ráðherra núna? Algjörlega í andstöðu við alla þessa aðila stígur hann fram og skapar enn fullkomna ósátt í þessari mikilvægu atvinnugrein þegar það er þjóðarbúinu langmikilvægast að stöðugleiki og sátt ríki í sjávarútvegi. Ef þessari hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherra auðnaðist að ganga fram og segja þjóðinni og þeim sem starfa í þessari grein, útgerðum um allt land, að sáttaleiðin yrði farin mundu skapast í næstu viku þúsund störf í því sem hefur hér verið farið yfir, viðhaldi, fjárfestingum og öllu því sem tilheyrir. (Forseti hringir.) Það er besta bótin fyrir landsbyggðina, hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir. (Forseti hringir.) Það yrði besta meðalið fyrir hana, en ekki þessi óvissa.