139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

áform um breytingar á fiskveiðistjórnarlöggjöfinni.

[11:58]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég var að hugsa um að látast ekki hafa heyrt orð síðasta ræðumanns, svo dæmalaus fannst mér ræða hans vera að mörgu leyti.

Niðurstaða þess starfshóps sem sjávarútvegsráðherra skipaði á síðasta ári og sú vinna sem hann vann og þær tillögur sem hann gerði byggðust fyrst og fremst á þeim hörmulegu afleiðingum sem núverandi stjórnkerfi hefur haft á sjávarútveginn og byggðirnar í landinu, ekki á einhverjum ætluðum afleiðingum í framtíðinni miðað við breytingar á stjórnkerfinu. Það var ástæðan fyrir því að sá starfshópur var skipaður, þær afleiðingar sem núverandi stjórnkerfi hefur leitt af sér.

Starfshópurinn skilaði ítarlegum niðurstöðum sem um varð allgóð sátt í samræmi við samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna, í samræmi við það sem rætt var í hópnum og þá umræðu sem þar þróaðist meðal allra þeirra sem þar voru og endaði með því að um þær niðurstöður sem sjá má í skýrslu starfshópsins var nánast einhuga sátt með örfáum undantekningum. Heildarhugmyndafræðin sem í tillögunum felst var studd af öllum aðilum fyrir utan fulltrúa Hreyfingarinnar, og þar með talið fulltrúa sjómanna, fiskverkafólks, allra stjórnmálaflokka á Alþingi o.s.frv.

Ég tel að það eigi að fylgja tilmælum í bréfi ráðherra til hópsins, að á grundvelli vinnu starfshópsins og þeirra valkosta sem hann bendir á muni ráðherra ákveða frekari tilhögun við endurskoðun laga um stjórn fiskveiða. (Forseti hringir.) Ég tel að við eigum að halda okkur við það. Allt annað væri stílbrot á þeirri vinnu (Forseti hringir.) sem þegar hefur verið unnin og er í stefnu stjórnvalda.