139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

flutningur á málefnum fatlaðra.

[12:11]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Það verða tímamót eins og við þekkjum öll um næstu áramót þegar stór og mikill málaflokkur, málefni fatlaðra, færist yfir til sveitarfélaganna frá ríkinu. Annar eins verkefnaflutningur hefur ekki átt sér stað síðan grunnskólinn fluttist yfir til sveitarfélaganna á sínum tíma, árið 1996. Það skref var að mínu mati tvímælalaust jákvætt. Það styrkti menntakerfið þó að reynslan sýni okkar að margt hefði betur mátt fara. Þá er um að gera að læra af reynslunni.

Það er brýnt að við, auk sveitarfélaga, embættismanna og hagsmunasamtaka, nálgumst verkefnið sem fram undan er af metnaði, heiðarleika og bjartsýni. Að þungamiðja nálgunar okkar sé hinn fatlaði og þjónustan í kringum hann.

Auðvitað er freistandi fyrir mig í stjórnarandstöðunni að taka upp þá alvarlegu gagnrýni sem sett var fram af hálfu Ríkisendurskoðunar í skýrslu hennar í ágúst sl. um skipulag á þjónustu við fatlaða. Hún fer nokkrum orðum um þjónustuna við fatlaða og að henni sé að ýmsu leyti ábótavant. Þegar maður rýnir yfir athugasemdirnar má sjá að þær eru verulegar og þær eru alvarlegar. Formleg heildarstefna fyrir málaflokkinn liggur ekki fyrir. Fjárveitingar miða ekki við reglubundið mat á þjónustuþörf eins og lög kveða á um. Það segir að ekki sé hægt að fullyrða að þjónusta sé jöfn hjá þjónustuaðilum og ráðuneytið hefur ekki kallað eftir samræmdum upplýsingum um starfsemi þjónustuaðila frá árinu 2004 þegar það hefur lengi legið fyrir að flytja á málaflokkinn yfir til sveitarfélaganna. Það er sérstaklega einkennilegt í því ljósi.

Auðvitað má spyrja: Hvar hafa félagsmálaráðherrar undanfarinna ára verið? Formaður Öryrkjabandalagsins segir einnig, þannig að þetta líti ekki út sem karp af minni hálfu í stjórnarandstöðunni, að ráðuneytið hafi einfaldlega ekki unnið vinnuna sína. En auðvitað eru þetta allt saman atriði sem ég veit að hæstv. núverandi félagsmálaráðherra er að fara gaumgæfilega yfir. Hann hlýtur að hafa kannað atriðin sem fram komu í skýrslunni. Hann er örugglega — ég treysti því að hann sé á fleygiferð að leysa ábendingarnar sem settar voru fram. Ég geri einnig ráð fyrir því að hæstv. ráðherra útskýri fyrir þingheimi hvernig hann sér okkur saman klára flutninginn á málefnum fatlaðra fyrir áramót án þess að einhver fljótaskrift einkenni afgreiðslu þingsins og ráðuneytisins.

Ég veit líka að sveitarfélögin sjálf, þær mikilvægu stofnanir, eru á fleygiferð. Þau hafa unnið baki brotnu undanfarið til að búa sig sem best undir þær breytingar sem verða þegar þau taka við málaflokknum. Ég hef hlustað á sveitarfélögin á undanförnum dögum kynna áherslur sínar. Flestir forsvarsmenn sveitarfélaganna hafa lýst yfir áhyggjum af því hvort nægilegt fjármagn fylgi með. Hins vegar, og það er rétt að draga það fram, eru flestir á því að þjónustan verði betri og að möguleikar á að laga hana að þörfum hvers og eins verði meiri. Eitt stjórnsýslustig og vonandi einföldun á kerfinu á að vera stuðningur í því efni.

En í ljósi þess sem fram kom í skýrslu Ríkisendurskoðunar vil ég í fyrsta lagi leggja fram spurningar fyrir hæstv. ráðherra: Hvenær mun liggja fyrir formleg heildarstefna um málaflokkinn? Getur ekki þingið sjálft aðstoðað ráðherra við þá stefnumörkun svo hún liggi sem allra fyrst fyrir? Þetta er mikilvægt.

Í öðru lagi: Hvernig mun hæstv. félagsmálaráðherra beita sér svo fjárveitingar taki mið af reglulegu mati á þörf á þjónustu svo tryggt verði að fatlaðir á landsvísu njóti jafnræðis?

Í þriðja lagi spyr ég: Hvernig ætlar ráðuneytið að tryggja að rekstrarupplýsingar verði aðgengilegar og hvernig ætlar félagsmálaráðherra að sjá til þess að hægt sé að meta mögulegan ávinning af flutningi málaflokksins yfir til sveitarfélaganna?

Auðvitað fyrst og síðast, frú forseti, er spurningin: Hvernig getum við sem erum á þingi, í stjórn en ekki síður í stjórnarandstöðu, hjálpað til? Hvernig getum við unnið saman svo við getum öll, ja, kannski hugsanlega eftir nokkurn tíma, litið nokkuð stolt yfir farinn veg, litið stolt um öxl og sagt: Já, við stóðum öll saman að því að efla og styrkja umhverfi fyrir fatlaða? Við settum hinn fatlaða í forgang og hans þarfir en settum sjálft stjórnmálakarpið til hliðar. Frú forseti: Hvað getum við gert til að hæstv. félagsmálaráðherra fái stuðning til þessa málefnaflutnings yfir til sveitarfélaganna? Hvernig getum við aðstoðað ráðherrann?