139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

flutningur á málefnum fatlaðra.

[12:21]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir umræðuna um þetta mikilvæga mál og aðkallandi. Tilflutningur á málaflokki fatlaðra til sveitarfélaga hefur lengi verið í bígerð en samt er verkefnið einhvern veginn á síðustu stundu. Þetta er kannski lýsandi fyrir séríslenskt hugarástand og séríslenska aðferðafræði, sambland langtímamarkmiða og þess að vera á síðustu stundu með að framkvæma þau. Hvað um það, þetta er kannski bara okkar háttur án þess að ég ætli að vera með miklar alhæfingar um það.

Mér finnst ákaflega mikilvægt að við förum af fullum krafti í það verkefni að koma málaflokknum yfir til sveitarfélaganna og ég held að á heildina litið ríki sátt um það. Mér finnst líka mikilvægt að við lítum þá svo á að þessi tímapunktur, um áramótin, sé ekki endapunktur. Hann er vissulega endapunktur á því ferli að koma málaflokknum yfir til sveitarfélaga en hann er líka upphaf og við verðum að líta á hann mjög skýrt sem slíkan punkt vegna þess að auðvitað er það rétt eins og skýrt hefur komið fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að verkefnin sem blasa við í þessum málaflokki eru ærin og yfirgripsmikil og varða eiginlega algjörlega grundvöll hans. Það er eftirlitsþátturinn sem Ríkisendurskoðun gagnrýnir, skortur á ákveðinni stefnufestu og ef við lítum á þennan punkt um áramótin sem upphaf á hann auðvitað að verða okkur hvatning til þess að gera bragarbót á öllum þessum hlutum.

Svo er líka margt fleira sem þarf að gera í þessum málaflokki, eins og t.d. að varðveita ákveðna fjölbreytni í úrræðum gagnvart fötluðum. Það þarf að varðveita jafnræði og hvað varðar allan þennan aðgerðalista ætla ég að koma betur að honum í (Forseti hringir.) síðari hluta máls míns.