139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

flutningur á málefnum fatlaðra.

[12:37]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ítreka þakkir mínar fyrir þessa umræðu. Ég held að við þurfum ekki að bera kvíðboga fyrir þessari tilfærslu með þann tón sem hér er sleginn, okkur ber öllum saman um hvert verkefnið er og hverra hagsmuni við eigum að bera fyrir brjósti við þessa breytingu. Það er nefnilega svo mikilvægt fyrir okkur að þetta snýst ekki bara um fjárhagslegan ávinning, þetta snýst líka um að bæta þjónustu og fyrst og fremst að bæta þjónustu við fólk með fötlun og veita hana í nærsamfélaginu samhliða því sem efla á sveitarstjórnarstigið.

Það er mikilvægt líka að það komi fram í umræðunni — við skulum bara horfast í augu við það varðandi þjónustuna eins og hún hefur verið á undanförnum árum — að við köllum eftir jafnræði sem ég er algjörlega sammála og skiptir gríðarlega miklu máli en það hefur ekki verið til staðar, því miður. Þjónustan hefur verið mjög ólík eftir svæðum á landinu, það hafa verið samningar á ákveðnum svæðum sem hafa sem betur fer skilað meira fjármagni inn á þau svæði og betri þjónustu. Þetta er hluti af því sem þarf að leiðrétta, að þessi þjónusta verði jöfnuð og hún verði veitt með betri hætti og undir skipulegra eftirliti en áður hefur verið. Við höfum reynslu af samstarfi sveitarfélaga varðandi þennan málaflokk, bæði af Norðvesturlandi, Akureyri og í Höfn. Sú reynsla er mjög jákvæð.

Eitt af því sem er sett hér inn varðandi alla málsmeðferðina er endurskoðunin 2014 sem á að tryggja að það verður endurskoðun á fjárhagsrömmunum, það verður endurskoðun á því hvernig þjónustan hefur gengið. Það skiptir mjög miklu og er mikilvægur lærdómur sem var dreginn af yfirfærslunni varðandi grunnskólann að þarna er sett inn endurskoðunarákvæði til að tryggja betri þjónustu í framhaldinu.

Ég treysti á að við stöndum þétt saman um að láta þetta takast vel. Það er vilji okkar allra og við munum gera okkar besta í því á næstu vikum.