139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

húsnæðismál.

100. mál
[14:22]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hélt frábærlega góðar ræður í morgun sem a.m.k. hrærðu mig til umhugsunar um það sem skiptir máli í samfélaginu. Ef ég vissi ekki betur mundi ég halda að hv. þingmaður væri kaldhæðinn náungi sem tryði ekki á neitt miðað við ræðu hans áðan. Það virðist sem hann telji að ríkisstjórnin sé beinlínis að leggja lykkju á leið sína til að slá upp einhverri spilaborg og plata fólk.

Þegar hv. þingmaður talar um frumvörp sem ríkisstjórnin hefur lagt fram og sem hann hefur lofsungið hér, a.m.k. á síðustu mánuðum, eins og fyrningarfrumvarpið, og kallar þau bjarnargreiða við fólk, þá er ég hættur að skilja þessa hluti. Mér finnst að hv. þingmaður eigi ekki að leyfa sér að slá það frumvarp út af borðinu áður en það er komið til umræðu í þinginu, svo einfalt er það nú.

Það er ekki búið að leggja það mál fram. Það kann vel að vera að á því séu einhverjir ágallar en það er þá ekki vegna þess að sá ágæti ráðherra sem flytur málið geri það viljandi, það vitum við báðir að hann vill gera sitt besta í því máli. Það frumvarp var að ýmsu leyti byggt á öðru frumvarpi sem hér var flutt af einum af hv. þingmönnum stjórnarliðsins og ég veit að hv. þm. Þór Saari tók því ákaflega vel á sínum tíma.

Hv. þingmaður getur talað svona þegar komið er að skapadægri þess frumvarps, þegar búið er að ganga frá því af hálfu þingsins og ef hv. þingmaður er enn þeirrar skoðunar eftir að hafa sjálfur fengið tækifæri til að koma með sínar röksemdir að það sé jafnhundónýtt og hann er að segja, ja, þá skal ég sitja í mínum stól og þegja. En þar til að hv. þingmaður hefur séð hver viðbrögð þingsins og stjórnarliðsins verða, m.a. við þeim ábendingum sem hann kann að koma fram með við það frumvarp, finnst mér að hann eigi að spara sér svona yfirlýsingar.