139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[15:00]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað eru það almennir hagsmunir allra þeirra sem eiga útistandandi skuld að innheimta hana. Það eru hinir almennu hagsmunir. Hinir sérstöku hagsmunir, sem vikið er að hérna, túlkast af því af hvaða rót þeir eru runnir og það er skilgreint hver sú rót er; ef um saknæmt eða refsivert eða ámælisvert athæfi er að ræða. Ég tek sem dæmi: Ofbeldisglæpur hefur verið framinn og maður er dæmdur í skaðabótasekt, þá er eðlilegt að fórnarlambið geti óskað eftir því að fyrning verði rofin. Það eru tilvik af slíku tagi sem verið er að höfða til.

Síðan er sagt að við þurfum að fá dómstólana til að kveða úr um það vegna þess að við getum ekki sem löggjafi skilgreint út í hið óendanlega hvaða tilvik hér eiga við þegar við erum að tala um réttlætið, það getum við ekki gert. Þetta getur tekið á sig margbreytilegar myndir. En við skilgreinum á hinn bóginn rammann og hann er alveg skýr. Þetta á að túlka með tilliti til rótarinnar, af hvaða rót krafan er runnin. Þetta er alveg skýrt. Þetta er vel unnið og vel yfirfarið, það get ég fullvissað hv. þingmann um, af okkar færustu lögfræðingum. En vilji löggjafans hins vegar, og þar kemur að pólitíkinni, er að búa svo um hnútana að gjaldþrota fólk geti reist sig við á ný. Það er okkur öllum hagsmunamál.