139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[15:08]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst ánægjulegt að heyra að hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, er sammála grundvallarreglunni sem verið er að setja með þessum lögum. Það er rétt að það er verið að festa í lög grundvallarbreytingu og það er líka rétt sem hann leggur áherslu á að undantekningar frá hinni almennu reglu ber að túlka þröngt.

Ég vil einnig taka undir það með honum að þegar löggjafinn breytir lagasmíð sem hefur mikla þýðingu, eins og þessi gerir, ber okkur að vanda vel til verka. En ég minni á að við fórum mjög vel í gegnum þessa umræðu síðasta vor í allsherjarnefnd þingsins og í aðdraganda þess að þetta frumvarp var sett fram hefur málið fengið góða skoðun.

Það er alveg rétt að ef litið er til grannríkjanna þá er rýmri frestur á Norðurlöndum t.d. og í Evrópu miðað við þetta. Vestan hafs hins vegar er þessi frestur miklu skemmri. Þar geta einstaklingar og fyrirtæki reist sig við miklu fyrr. En staðreyndin er sú náttúrlega, sem við getum ekki horft fram hjá á Íslandi, að efnahagskerfi okkar hefur hrunið, fjármálakerfið hefur hrunið, fjöldi einstaklinga og fyrirtækja hefur misst fótanna í þessum darraðardansi og það er þeim sem manneskjum og okkur sem samfélagi og okkur sem efnahagskerfi mjög mikilvægt að allir komist sem fyrst á fætur.