139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[15:33]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst aðeins varðandi skattalegu hlið þessara mála. Staðan er þannig í dag að til þess að menn lendi ekki í skattlagningu við niðurfellingu skulda þurfa menn annaðhvort að hafa fengið slíka niðurfellingu eftir gjaldþrot eða á grundvelli nauðasamninga. Fái menn felldar niður skuldir í frjálsum samningum koma til skoðunar viðmiðin sem hér hafa verið lögfest og við tókum til umfjöllunar á síðasta þingi og ég hef áhyggjur af því. Ég tel að ef fyrir liggur að allar eigur manna hafi verið notaðar til þess að gera upp við lánardrottna eigi það að duga, það eigi ekki að setja hin formlegu skilyrði um að farin sé leið nauðasamninga eða gjaldþrotaskipta til þess að skattalegu áhrifunum sé ekki til að dreifa.

Varðandi tímann, ég get alveg tekið undir það að við skulum hraða meðferð þessa máls en tökum okkur þann nauðsynlega tíma sem þarf til að fá yfirlit yfir hvaða leiðir nágrannaþjóðir okkar hafa farið og hver reynslan hefur verið af lögunum eins og þau hafa verið í framkvæmd. Þessu frumvarpi fylgja t.d. engar tölulegar staðreyndir um fjölda gjaldþrota eða neinar tölulegar upplýsingar um hvenær hið opinbera að jafnaði fellir niður skuldir eftir árangurslaust fjárnám eða gjaldþrot. Engum upplýsingum er dreift með þessu frumvarpi.

Varðandi hvatana sem ég vék aðeins að og hæstv. utanríkisráðherra kom inn á finnst mér ráðherrann gera of lítið úr því hversu íþyngjandi greiðsluaðlögunarúrræðið í raun og veru er. Það er verulega íþyngjandi. Þar eru menn að gera samninga um að nota meira og minna allar ráðstöfunartekjur sínar til að standa í skilum í mörg ár. Ef menn bera það saman við að fá einfaldlega kveðinn upp gjaldþrotaúrskurð þar sem menn eru eftir úrskurðinn með enga slíka samninga á bakinu (Forseti hringir.) er ég ekki viss um, þegar menn vega og meta þessa tvo kosti, að niðurstaðan verði sú sama og ráðherrann komst að.