139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[15:52]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég fagna komu frumvarpsins. Hér á Íslandi hefur verið komið fram við fólk, sem hefur orðið svo ólánssamt að verða gjaldþrota eða verið gert gjaldþrota, verr en t.d. kynferðisafbrotamenn. Þess vegna er um mannréttindamál að ræða. Það er einnig samfélagslega óhagkvæmt að gera fólk brottrækt úr mannlegu samfélagi. Það býr til svartan vinnumarkað og hrekur fólk úr landi.

Ég vona svo sannarlega að frumvarpið virki eða að allsherjarnefnd og þingmenn, sem þar eiga sæti, taki sig til og stoppi í götin sem ég tel vera á því.

Ég hef miklar áhyggjur af því að hægt verði að krefjast þess fyrir dómi, með því að sýna fram á sérstaka hagsmuni, að rifta fyrningunni. Það yrði okkur dýrkeypt. Þessar áhyggjur hef ég af fenginni reynslu af dómstólum og dálæti þeirra á eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Túlkun þeirra virðist ávallt vera fjármagnseigendum í hag. Það má segja að brennt barn forðist eldinn í þessu tilliti.

Mig langar einnig að benda á önnur atriði sem mér finnst að verði að taka á. Það fyrsta er að það þarf að setja skiptastjórum ákveðin og skýr tímamörk. Ég hef sjálf heyrt dæmi af manni sem var tekinn til gjaldþrotaskipta árið 2001. Búið var ekki gert upp fyrr en árið 2006. Gjaldþrotameðferð stendur yfir í fimm ár og við bætist tveggja ára fyrningarfrestur. Einnig er hægt að bæta tveimur árum við á hinn endann á meðan einstaklingurinn var í fjárhagserfiðleikum. Þetta eru um níu ár. Það er allt of langur tími. Það er ekki í samræmi við markmiðið sem þessi breyting á lögunum gengur út á.

Aðalatriðið í umræðunni um skuldamál heimilanna er að það verður að leiðrétta hinn almenna forsendubrest. Við þurfum að koma í veg fyrir að fólk þurfi að fara í gjaldþrot. Það er ekki nóg að gera gjaldþrotin hugguleg.

Svo er annað atriði sem ég hef áhyggjur af og það er að fólk verði ekki gert gjaldþrota. Það er asnalegt að hafa áhyggjur af því, en fjölmörg dæmi hafa sýnt fram á að þar sem árangurslaust fjárnám hefur verið gert, er látið þar við sitja. Það kostar kröfuhafann 300 þús. kr. að knýja menn í gjaldþrot, það á ekki við um árangurslaust fjárnám. Þetta eru eingöngu lög um gjaldþrotaskipti, hvorki aðra þrotameðferð né fyrningarfrest í öðru máli. Þetta eru helstu götin sem mér finnst að stoppa þurfi í.

Annars vona ég það besta. Ég mun svo sannarlega ekki liggja á mínu liði og mun reyna að koma nauðsynlegum breytingum á. Ég veit að ásetningurinn er góður og fagna honum.