139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[15:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég fagna þessu frumvarpi og mér finnst meiningin vera mjög góð. Því miður er hluti af þjóðinni í eins konar eyðimerkurgöngu undir yfirborðinu og búinn að vera það lengi. Mér finnst alveg sjálfsagt að klippa á það þótt ekki sé nema af mannúðarástæðum.

Ég nefndi fyrr í andsvari við hæstv. ráðherra það gæti verið galli í frumvarpinu, þ.e. þessir sérstöku hagsmunir eru túlkunaratriði. Þótt reynt sé að útskýra í greinargerð, sem mér finnst alltaf dálítið slæmt að ekki skuli standa í lagatextanum sjálfum hvað menn meina heldur þurfi að fara í greinargerð til þess að finna út hvað meint er, er það enn þá óljóst því að „ámælisvert“ er ekki voðalega skýrt í mínum huga. Ég mundi vilja að hv. nefnd sem fær þetta til skoðunar skoði þessa þætti alla saman reyndi að finna á þá meitlaðra orðalag.

Við erum nýbúin að samþykkja frumvarp um greiðsluaðlögun heimila og ég taldi að eftir að það frumvarp væri komið yrði eiginlega ekkert um gjaldþrot heimila því að þau mundu öll fara í greiðsluaðlögun og þar yrðu málin rædd og jöfnuð með samningum milli kröfuhafa og lántakandans. Við gjaldþrot tapa yfirleitt allir, bæði lántakandinn, kröfuhafinn og allir sem koma að því máli, þannig að ég hefði miklu frekar viljað sjá að sem flest heimili færu í greiðsluaðlögun, sem er einmitt hugsuð til að koma í veg fyrir tap.

Ég ætla að fara í gegnum kosti og galla þessa frumvarps. Það sem er gott við frumvarpið er að það klippir á skuldir sem ekki verða innheimtar. Það er mjög mikilvægt í kjölfar kreppu og svona mikils áfalls að klippt sé á skuldir svo menn séu ekki að rífast í áratugi um hver eigi að borga hvað. Nú þegar hafa menn beðið í allt of langan tíma eftir einhverri lausn og næstum allt þjóðfélagið er búið að vera í limbói, getur maður sagt, í tvö ár. Þess vegna er mjög mikilvægt að koma með eitthvert tæki sem klippir á.

Að samþykktu frumvarpinu gerist það, sem er jákvætt, að fólk sem er í undirheimum núna kemur upp á yfirborðið. Þar er mannauður, fólk sem borgar ekki skatta í dag en getur þá farið að borga skatta og svoleiðis. Þá verður nýtt upphaf fyrir það fólk. Það er ný von og dýrmæt kennsla fyrir viðkomandi, vonandi, ef það hefur farið sér að voða með fjárfestingum og öðru slíku. Það kemur reynsla inn í þjóðfélagið sem er líka mikilvæg. Þjóðfélagið, allt samfélagið, verður afslappaðra og heimilin verða rólegri. Það eru kostirnir við að menn hafi ekki gjaldþrot hangandi yfir sér og óafskrifaðar kröfur stöðugt og endalaust. Það hjálpar þeim sem eru að þessu leyti utanveltu við kerfið.

Það sem vantar inn í frumvarpið og ég skora á hæstv. nefnd að skoða er fólkið sem er gjaldþrota núna, hópur manna sem ég veit ekki einu sinni hvað er stór — það er kannski eitt af því sem við vitum ekki um í upplýsingaþjóðfélaginu, hversu stór hluti manna er undir yfirborðinu í dag vegna ýmiss konar mála. Það getur verið vegna ógreiddra meðlaga, ég veit ekki hvort það er ámælisvert að borga ekki meðlag með barninu sínu, það er álitamál. Það getur verið vegna áætlana skattstjóra fyrir kannski 10 árum sem alltaf er munað eftir og minnt á, sem getur verið ámælisvert. t.d. ef um er að ræða rimlagjöld sem kölluð eru. En það getur líka verið að ekki sé nokkur fótur fyrir þessum áætlunum þannig að það er eitthvað sem þarf að skoða.

Ég mundi vilja að nefndin reyndi að kippa því fólki sem er undir yfirborðinu í dag vegna fyrri gjaldþrota, upp á yfirborðið með sæmilegum hætti.

Mér finnst lítið rætt um það í frumvarpinu og greinargerðinni hvað gerist þegar menn gera svona mikla breytingu á grundvallaratriði í þjóðfélaginu sem fyrningin er. Hvað gerist? Hvaða afleiðingar hefur það hingað og þangað? Það getur kynt undir óráðsíu, við skulum bara hafa það á hreinu. Sumt fólk er þannig. Sum okkar þekkja því miður nokkra sem ekki kunna með peninga að fara og sem eru alltaf í slæmum málum, sem kallað er. Nú fá þeir hinir sömu tækifæri á tveggja ára fresti til að fara í gang aftur, það er slæmt og þarf að ræða.

Kröfuhafar eru ekki endilega bankar. Það getur verið hún amma gamla sem skrifaði upp á veð eða eitthvað slíkt eða lánaði pening til bílakaupa. Það getur verið systir eða bróðir sem er með sérstaka kröfu eða sérstaka hagsmuni, mundi ég telja — eða hvað? Þessir kröfuhafar tapa þá fljótt og vel og eiga enga möguleika á að ná í kröfuna eftir tvö ár.

Þetta kerfi mun örugglega hækka vexti ef eitthvað er. Það verður meiri áhætta fólgin í því að lána og það kemur fram í hærri vöxtum. Það hækkar áhættuálagið á vextina. Hvað mikið, veit ég ekki.

Svo þurfum við líka að velta vanda ungra lántakanda fyrir okkur og hvergi er minnst á þá í þessu frumvarpi. Hvað gerir maður sem tekur lán? Hann er að ráðstafa framtíðartekjum sínum, það er bara þannig. Það ætti að kenna í grunnskólum, að lántaka er ekkert annað en ráðstöfun á framtíðartekjum og menn gera það svo sem ekki allt of oft því að þær eru takmarkaðar. Menn vinna kannski í 40, 50 ár og það eru tekjurnar sem menn hafa til ráðstöfunar alla ævina. Skatturinn tekur hluta af því, lífeyrissjóðurinn tekur hluta og svo hafa menn eitthvað til ráðstöfunar. Með lántöku ráðstafa þeir þessum framtíðartekjum, sérstaklega ungt fólk. Það á mikið til ráðstöfunar af framtíðartekjum. Þetta frumvarp klippir á það vegna þess að samkvæmt því er ekki hægt að ná í nema tveggja ára framtíðartekjur og síðan getur maður farið að ráðstafa framtíðartekjum aftur.

Auðvitað vona ég að menn noti fjármagnið sem þeir taka út á framtíðartekjurnar til fjárfestinga í einhverjum eignum sem duga sem hverfa ekki, eins og í fasteignum eða einhverju slíku. Ég vona að menn kaupi ekki bíla með lánum, en sumir gera það víst. Bílar rýrna mjög hratt og eru yfirleitt mjög óskynsamleg fjárfesting. Það er önnur saga.

Vandi ungra lántakenda er sá að þeir treysta á að fá lán út á framtíðartekjurnar. Þetta frumvarp klippir eiginlega á það þannig að hætt er við því að þeir eigi erfitt með að fá lán eftir svona breytingar. Það þurfa menn að ræða og fara í gegnum, það vantar inn í frumvarpið.

Svo er það spurningin: Hvað gerist eftir þrjú ár ef skuldaranum sem er búinn að fá uppgefnar allar skuldir tæmist allt í einu arfur og hann er allt í einu orðinn moldríkur? Hvernig haldið þið að fátæka manninum líði sem átti kröfu á hann, þ.e. bróður hans eða ömmu hans sem átti kröfu á hann en tapaði henni? Það eru því ýmsar hliðar á þessu sem þarf að skoða. Svo þarf að sjálfsögðu að skoða eignarréttinn, hvort þetta meiði hann að einhverju leyti, því að hann er jú í stjórnarskránni og við höfum svarið eið að henni. Okkur ber því að standa vörð um eignarréttinn þótt sumum líki það ekki sérstaklega vel.

Mér finnst vanta upplýsingar. Hvað greiða margir af þeim sem verða gjaldþrota eftir tvö ár? Ég hugsa að séu sárafáir. Tilfinning mín segir mér það, en það er tilfinning, ekki upplýsingar. Það mætti eflaust kanna og nefndin ætti að sjálfsögðu að kanna hversu margir greiða eftir tvö ár. Hvað tapa hinir svokölluðu fjármagnseigendur — sem er ljótt orð en það göfug athöfn að spara — miklu á því að stytta fyrningarfrestinn? Ég held þeir tapi ekkert voðalega mikið á því þannig að það er ekkert mikil skerðing á eignarrétti.

Spurningin er líka: Hverjir hundelta skuldara í 10, 20, 30 ár? Hverjir eru svona duglegir við að elta kröfur sínar? Ég veit það ekki en ég hef það einhvern veginn á tilfinningunni að það sé skatturinn, það séu opinberir aðilar sem aldrei gleyma, sem alltaf muna og fara á eftir mönnum, hugsanlega bankar líka. Ég heyrði sögu þar sem kona hafði skrifað upp á fyrir bróður sinn fyrir 20 eða 30 árum — sagan var einhvern tímann á facebook — en það var aldrei gengið á bróðurinn. Systirin sem átti húsnæðið var 19 eða 20 ára þegar það gerðist, held ég. Húsið var selt ofan af henni, hún var með tvö börn og það var fyrst árið 2009 sem bankinn tilkynnti að hann væri hættur að eltast við skuldirnar, 18 árum seinna. Bróðirinn slapp, það var aldrei talað við hann því að hann átti engar eignir og það var ekkert af honum að hafa en systirin var hundelt þannig að ég held að frumvarpið sé mjög gott.

Við þurfum líka að taka á þeim sem eru nú þegar undir hælnum. Ég vil helst að frumvarpið sé þannig. Menn geta hugsanlega rætt um að lengja frestinn í þrjú ár, eitthvað svoleiðis, en komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að rjúfa fyrninguna megi ekki fara aftur í sama hjólfarið, í 10, 20 ára fyrningu. Þá þurfum við kannski að bæta við sex árum og þá er dæmið bara búið. Mér er nokk sama um ástæðuna fyrir því að fólk lendir í slæmri stöðu, hvort það er vegna þess að það hefur ekki greitt meðlagið sitt, vegna einhverrar sektar sem það gat ekki borgað eða rimlagjalda, eða hvað það nú er, mér finnst ómannúðlegt að refsa mönnum lengur en í sex ár. Þess vegna mundi ég vilja að hv. nefnd skoði það ef niðurstaðan verður sú að um sérstaka hagsmuni sé að ræða, hvað sem það nú er, að menn fari ekki í gamla hjólfarið, að nefndin reyni að fá til viðbótar t.d. þriggja ára fyrningu, síðan væri málinu lokið. Einhvern tímann þarf að ljúka því.