139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[16:20]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir ágæta umræðu um þetta frumvarp og þá sérstaklega það hve sammála þingheimur virðist vera um meginmarkmið laganna og þær breytingar sem hér er lagt til að gerðar verði á þeim.

Ég er þeirrar skoðunar sjálfur að frumvarpið sé ágætlega úr garði gert, en ítreka að sú gagnrýni sem fram hefur komið og þær ábendingar sem fram hafa komið þurfa að fá góða skoðun í allsherjarnefnd þingsins áður en við endanlega afgreiðum málið frá okkur og ég tek undir ýmis sjónarmið þar um sem hafa komið fram í umræðunni.

Aðeins í lokin fjallar frumvarpið um það að samræma fyrningarfrest á kröfur sem gerðar eru í þrotabú þannig að hann verði tvö ár, það verði hin almenna regla, frávik verði aðeins heimiluð í algerum undantekningartilvikum og það þurfi að sækja slíka heimild fyrir dómstól. Það er rétt að taka það fram að þetta á einnig við um skattskuldir.

Vegna þess að með frumvarpinu er álit frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, vil ég ítreka að það sama gildir um skattskuldir og aðrar skuldir eða aðrar kröfur. Í umfjölluninni segir, með leyfi forseta:

„Verði umrætt frumvarp hins vegar að lögum styttist fyrningarfrestur skattskulda úr fjórum árum í tvö ár óski skuldari eftir gjaldþrotaskiptum. Að tveimur árum liðnum lætur innheimtumaður ríkissjóðs gera eignakönnun og telji hann líkur á að skuldari verði borgunarfær á næstu árum getur hann óskað eftir því gagnvart héraðsdómi að rjúfa fyrninguna og þá hefst almennur fyrningarfrestur.“

Þetta er alveg hárrétt. Skattheimtan getur sett fram þessa ósk, en hún er undirseld nákvæmlega sömu lagaákvæðum og verður að fara í gegnum sama nálaraugað og allir aðrir. Þar þarf að sýna fram á að um undantekningartilvik sé að ræða. Það er ekki búið að opna þarna almenna leið fyrir skattinn til að rjúfa fyrningu, það er alls ekki hugsunin með þessu frumvarpi. Alls ekki.

Ég vil að lokum segja að ég hygg að við séum sammála um að það eigi að stuðla að því að einstaklingar og fyrirtæki sem missa fótanna komist sem fyrst á fætur aftur, geti reist sig við. Við erum líka sammála um að þetta á ekki að verða hvati til þess að einstaklingar eða fyrirtæki fari í gjaldþrot nema í nauðir reki og að sjálfsögðu hvet ég til þess að allir sem lenda í vandræðum leiti annarra leiða fyrst. Þá bendi ég sérstaklega á greiðsluaðlögunarúrræðin og minni á að fari menn í greiðsluaðlögun eiga þeir kost á því að halda heimili sínu. Það er grundvallarmunur þar á, vegna þess að sá sem fer í gjaldþrot missir allt, allar eigur sínar. Þannig að við erum að tala um mjög alvarlegan atburð í lífi fólks þegar það lýsir sig gjaldþrota eða er lýst gjaldþrota.

Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að það þarf að vera ákveðið jafnvægi á milli lánveitanda og lántakanda. Það jafnvægi hefur ekki verið fyrir hendi á Íslandi. Í hruninu raskaðist þetta jafnvægi enn meira.

Í tilefni þeirra orða hv. þm. Péturs H. Blöndals að með því að taka lán sé lánveitandinn að ráðstafa tekjum sínum inn í framtíðina … (PHB: Lántakandinn.) … sé lántakandinn að ráðstafa tekjum sínum inn í framtíðina. Ég set ákveðnar efasemdir fram hvað þetta snertir. Þetta getur ekki verið svona óskilyrt.

Ég leyfi mér að mótmæla því sem hefur verið við lýði á Íslandi að fjármálakerfið og lánveitandinn telji að einkaréttarleg krafa geti stofnast í aflahæfi einstaklinga langt inn í framtíðina. Með öðrum orðum að þrátt fyrir forsendubrest verði skuldarar í reynd starfsmenn bankakerfisins um ókominn tíma, árum og jafnvel áratugum saman, þeir vinni fyrir bankana um alla sína framtíð. Þetta er nokkuð sem að sjálfsögðu má ekki verða.

Hæstv. forseti. Í tilefni af yfirlýsingum sem komið hafa úr fjármálageiranum eftir að vitnaðist um þetta frumvarp um þessa fyrirhuguðu lagabreytingar, sérstaklega frá Arion banka, þá verð ég að segja að íslenska bankakerfið á að tala af meiri hógværð og meiri virðingu til þeirra sem misst hafa fótanna vegna forsendubrests á undanförnum mánuðum og missirum.