139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og Kólumbíu og landbúnaðarsamningur Íslands og Kólumbíu.

81. mál
[17:05]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að með því að ganga í Evrópusambandið styrkjum við fullveldi okkar með því að deila því. Við höfum gert það áður, það má segja að við höfum gert það þegar við gengumst undir sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Klárt er að við afsöluðum okkur fullveldi en styrktum það um leið þegar við gerðumst aðilar að norræna vinnumarkaðnum t.d., mjög mörgum Íslendingum til mikils hagræðis. Það hefur m.a. valdið því að fjölmargir þingmenn hér hafa getað tekið þátt í vinnumarkaðnum á Norðurlöndunum.

Ég held sömuleiðis að ef Ísland mundi ganga inn í Evrópusambandið mundi það efla fullveldi sitt að því leyti að þá getur það verið við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar og haft áhrif á ákvarðanirnar. Í dag er það meira og minna þannig að menn þurfa að taka möglunarlaust við tilskipunum og reglum frá Evrópusambandinu án þess að hafa nokkuð um það að segja.

Eins og innbyrðis afstaða framkvæmdastjórnar ráðherraráðs og Evrópuþingsins hefur þróast og vægi Evrópuþingsins aukist á síðustu árum þá hafa þau litlu áhrif sem við höfðum fyrst þegar framkvæmdastjórnin var allsráðandi innan Evrópusambandsins dvínað mjög. Þau eru ekki algjörlega horfin, þau hafa dvínað mjög. Þetta skiptir máli. Þá gæti hv. þingmaður sagt: Já, en við erum svo fá, við erum svo smá, rödd okkar er svo veikróma, munum við hafa einhver áhrif?

Hv. þingmaður þarf ekki að trúa mér í því efni, hann getur t.d. velt fyrir sér því sem Eva Joly sagði hér á dögunum. Hún lýsti því nákvæmlega hvernig minnihlutahópar hafa áhrif innan Evrópusambandsins, hvernig smáar þjóðir sækja og verja saman hagsmuni hver annarrar og eru oft á tíðum í allt öðrum þyngdarflokki en stærð þeirra gefur til kynna. Málið er því ekki alveg eins einfalt og hv. þingmaður teiknar það upp.