139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

hafnalög.

46. mál
[17:31]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á hafnalögum, nr. 61/2003.

Með frumvarpi þessu er lagt til að ríkissjóði verði heimilt að styrkja hafnarframkvæmdir við Helguvíkurhöfn og er það samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í hafnalögum.

Það var ánægjulegt hve mikill þorri þingmanna tók undir þessa tillögu, þetta frumvarp, á vinnslustigi og vonandi gengur það fram í samræmi við það.

Helguvíkurhöfn er alhliða fiskiskipa- og vöruflutningahöfn, en til stendur að gera hana að stórskipahöfn fyrir m.a. álver sem búið er að setja 17 milljarða í að byggja, kísilver og aðra stóriðju með hafnsækna starfsemi. Málið snýst um það að Reykjanesbær njóti sömu réttinda til styrkja og þátttöku ríkissjóðs þegar kemur að stórskipahöfnum og þekkist í sambandi við allar aðrar slíkar hafnir landsins, til að mynda á Grundartanga og á Reyðarfirði. Þetta eru hlutir sem hafa einnig komið við sögu bæði í Hafnarfirði og á Akureyri, en fyrst og fremst hjá stórskipahöfnunum sem ég nefndi hér áðan.

Höfnin hefur að auki þjónað eldsneytisinnflutningi fyrir Keflavíkurflugvöll og er nú öllu flugeldsneyti á Íslandi skipað upp í Helguvík. Höfnin er enn fremur skilgreind sem neyðarhöfn þar sem unnt er að taka við olíu. Hafnarframkvæmdir í Helguvík eru ódýrari en ef um byggingu nýrrar hafnar með skjólvarnargörðum væri að ræða.

Það hefur komið fram í ræðu og riti margra, ekki síst hjá Alþýðusambandi Íslands og í samkomulagi ríkisstjórnarinnar við samtök atvinnurekenda, að það skipti miklu máli að eðlileg uppbygging eigi sér stað í Helguvík og það sé í raun grunnurinn fyrir því að hagvöxtur náist í gang á Íslandi á næsta ári. Í stöðugleikasáttmála Alþýðusambands Íslands og hinna ýmsu félaga sem þar standa að við ríkisstjórnina er sérstaklega minnst á álver í Helguvík í því samhengi og vil ég vekja athygli á því hér.

Þar er miðað við að kappkostað sé að engar hindranir af hálfu stjórnvalda verði í vegi slíkra framkvæmda eftir 1. nóvember 2009. Jafnframt er vísað til þess að sveitarfélög og önnur stjórnvöld muni tryggja að farið verði að tímafrestum við gerð skipulags og allra leyfisveitinga og að greitt verði fyrir nýjum fjárfestingum eins og kostur er. Er því breytingin sem þetta frumvarp felur í sér í fullu samræmi við áðurnefndan stöðugleikasáttmála.

Margs konar starfsemi er nú þegar í Helguvíkurhöfn. Síldarvinnslan hf. rekur fiskimjölsverksmiðju og starfrækt er loðnuflokkun Helguvíkurmjöls ehf. Aalborg Portland er með sementsbirgðastöð. Hringrás ehf. starfrækir málmsöfnunarstöð og flytur út brotajárn. Alur álvinnsla ehf. starfrækir endurvinnslu á álgjalli í húsnæði Síldarvinnslunnar. Það er því um margs konar starfsemi að ræða.

Helguvíkurhöfn er eins konar móðurskip byggðanna á vesturhluta Reykjaness og mikið í húfi að staðið sé að því á eðlilegan hátt að byggja hana upp. Grundvallaratriðið er að Helguvíkurhöfn njóti jafnræðis á við aðrar hafnir landsins sem búið er að byggja og að ekki verði dráttur á slíku, því að það skiptir máli fyrir alla þætti í því að byggja upp atvinnulíf á Reykjanesi. Þar er mesta atvinnuleysi á Íslandi og hefur verið um árabil eða allt frá því að bandaríska varnarliðið stakk af af landi brott á einni nóttu án þess í raun að kveðja kóng eða prest og sýndi Íslendingum mikinn dónaskap með þeirri framgöngu. Þannig að það er íslenskra stjórnvalda að ganga til liðs við Suðurnesjamenn. Þar er unnið markvisst að ótrúlega mörgum framsýnum og fjölbreyttum hugmyndum á mörgum vígstöðvum í öllum plássum og það skiptir öllu máli að við stöndum fast að baki þeim og komum fram eins og sannir Íslendingar í þeim efnum og fylgjum þessu máli í höfn.

Ég legg til að að lokinni umræðu, virðulegi forseti, verði málinu vísað til samgöngunefndar Alþingis.