139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

fríverslun við Bandaríkin.

95. mál
[18:07]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið og verð að játa að ég hef ekki náð að fylgjast með umræðunni þar sem við þingmenn Suðurkjördæmis tókum á móti 50 Suðurnesjamönnum í kaffi sem stóðu hér fyrir utan og voru að mótmæla. Það varð til þess að ég náði ekki að fylgjast með umræðunni. En ég vildi koma og þakka hv. þingmanni Birgi Þórarinssyni fyrir það frumkvæði að leggja fram þessa þingsályktunartillögu sem mér gafst kostur á að vera meðflutningsmaður að og ég vildi ítreka stuðning minn við þetta mál.

Ég tel afar mikilvægt í allri umræðu um Evrópusambandið og aðildarviðræður hvar svo sem menn standa í þeim efnum, hvort sem þeir eru með eða á móti, að við gleymum ekki að það eru til fleiri lönd en Evrópulöndin og að við lítum sérstaklega vestur. Þess vegna finnst mér þessi tillaga til þingsályktunar um fríverslun við Bandaríkin vera af hinu góða og minna okkur á að þar liggja ýmis tækifæri.

Ég vann fyrir mörgum árum sem viðskiptafulltrúi Íslands í Bandaríkjunum og veit það og þekki af dvöl minni þar að mikill áhugi er í Bandaríkjunum fyrir ýmsum viðskiptum við Ísland. Ég efast því ekki um ef svona fríverslunarsamningur yrði gerður að hann yrði til þess að efla og styrkja það góða samband sem við höfum við Bandaríkin.

Ég ætlaði ekki að lengja umræðuna en vildi ítreka stuðning minn við þessa góðu tillögu.