139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samráð við stjórnarandstöðuna.

[14:10]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Nú hefur hæstv. forsætisráðherra enn á ný boðað til svokallaðs samstarfs með stjórnarandstöðunni. Það kom mér svolítið á óvart þegar hæstv. forsætisráðherra boðaði til fundar um atvinnumál vegna þess að síðasta leiksýning af þessari gerð stendur enn þá yfir og við vitum ekkert hún stefnir, þ.e. samráðið um skuldavandann. Þar gaf hæstv. forsætisráðherra í skyn að hún væri tilbúin til að beita sér fyrir almennri skuldaleiðréttingu. Svo var því haldið fram að ekki væru allir hlynntir þeirri leið og þar af leiðandi væri ekki hægt að fara hana — eins og það hafi komið hæstv. forsætisráðherra á óvart, í tvö ár, að ekki væru allir sammála um hvaða leið ætti að fara. En það er einmitt málið, það eru ekki allir sammála um hvaða leiðir eigi að fara og þá hlýtur hlutverk forsætisráðherra að vera að taka af skarið. Það er ekki starf forsætisráðherra að framkvæma eingöngu það sem hvort eð er allir eru sammála um fyrir fram. Það er beðið eftir því að hæstv. forsætisráðherra taki af skarið.

Við viljum gjarnan vinna með ríkisstjórninni í atvinnumálunum og öðrum málum en það kallar þá á stefnubreytingu ríkisstjórnarinnar. Við erum í tvö ár búin að upplifa endurtekið efni, sömu aðferðina aftur og aftur. Ríkisstjórnin lendir í vandræðum, stjórnarandstaðan er kölluð til funda, fjölmiðlarnir bíða fyrir utan, gefið í skyn að þar standi yfir mikið samráð — en svo breytist ekki neitt. Það breytist ekki nokkur skapaður hlutur þannig að nú er spurningin til hæstv. forsætisráðherra: Er hæstv. forsætisráðherra tilbúin í raunverulega stefnubreytingu varðandi atvinnumálin og önnur grundvallarmál?

Þá spyr ég fyrst og fremst um tvennt: Er hæstv. forsætisráðherra tilbúin til að hverfa frá þeirri stefnu að reyna að vinna okkur út úr kreppunni með skattahækkunum og hverfa frá því að koma í veg fyrir alla nýja orkuframleiðslu í landinu? Ef ríkisstjórnin er ekki tilbúin til að endurskoða hug sinn í þessum tveimur grundvallaratriðum, til hvers ætti þá þetta svokallaða samráð að vera?