139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samráð við stjórnarandstöðuna.

[14:16]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að allir sanngjarnir menn hljóti að viðurkenna að miðað við það gífurlega efnahagshrun sem þessi þjóð lenti í fyrir tveimur árum taki það meira en eitt og hálft ár að vinna þjóðina upp úr þeirri kreppu sem við erum í og að koma hér á endurreisn. Það er ósanngjarnt, hv. þingmaður, að halda því fram að þessi ríkisstjórn hafi ekkert verið að gera í því máli.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann telji það ekki ávinning að við höfum lækkað stýrivextina verulega, úr 18% niður í 5,5%, (Gripið fram í: Það hlýtur eiginlega …) að verðbólgan sé komin niður í 3%, atvinnuleysið sé mun minna en menn reiknuðu með, að skuldatryggingarálagið hafi lækkað niður í helming. Hér er talað um það, a.m.k. af mörgum erlendum aðilum sem hingað koma, seðlabankastjóra síðast í gær, að við séum á góðri ferð í endurreisninni. (Gripið fram í: Hvað …?) Margir tala um að hér hafi verið unnið kraftaverk.

Auðvitað eru það öfugmæli þegar því er haldið (Forseti hringir.) fram að þessi ríkisstjórn hafi ekkert gert og ég bið hv. þingmann að fara yfir þær 50 tillögur sem við höfum sett fram varðandi skuldavanda heimilanna.