139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

atvinnustefna ríkisstjórnarinnar.

[14:31]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er voðalega erfitt að botna í sumum af þeim ræðum sem hér eru fluttar vegna þess að þeir flokkar sem hafa talað, tveir — mér finnst ekki beint burðugar þær tillögur sem þeir hafa lagt fram í atvinnumálum. Mér finnst þær ekki beint burðugar. [Háreysti í þingsal.]

(Forseti (ÁRJ): Hljóð í þingsal.)

Ég harma það mjög að stjórnarandstaðan vilji ekki koma að þessu borði. Það er nauðsynlegt að við náum saman um þetta. Það er það sem fólk er að kalla eftir, að við náum saman um þær brýnu aðgerðir sem við þurfum að fara í. Og hv. þingmaður getur ekki með góðu móti sagt að ekkert hafi verið gert að því er varðar að reisa við efnahagslífið. (Gripið fram í: … kraftaverk?) Ja, það er næstum að ég kalli það kraftaverk og mig minnir að komið hafi sérfræðingar til landsins sem hafi kallað það kraftaverk að ná Íslandi upp úr þeim miklu erfiðleikum sem það hefur verið í. Og ég get ekki séð að þó að (Forseti hringir.) stjórnarandstaðan hefði verið við stjórnvölinn hefði hún gert það betur.

Ef þessi ríkisstjórn er jafnómöguleg og stjórnarandstaðan heldur fram, (Forseti hringir.) af hverju ber hún ekki fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina? (Gripið fram í.) Komið fram með vantraust á ríkisstjórnina. Við skulum sjá hvort hún hafi meiri hluta á þingi til að takast á við þessi viðfangsefni. Ef hún þarf að gera það án stjórnarandstöðunnar skulum við bara láta reyna á það. Við skulum þá sjá (Forseti hringir.) hvort stjórnarandstaðan sé annaðhvort tilbúin að fara í kosningar strax eða taka við.