139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

fundarstjórn.

[14:41]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Mig langar að taka aðeins til máls varðandi þá umræðu sem var hér áðan um m.a. atvinnumál. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmann um að ræða fundarstjórn.)

Já, ég mun ræða fundarstjórn forseta. Mig langar að beina því til hæstv. forseta þingsins að hún kalli saman formenn þingflokka vegna þess að umræðan áðan var í þeim hefðbundna farvegi að þingflokkar og stjórnmálaflokkar koma fram með tillögur í atvinnumálum sem þeir vita að munu valda deilum. Mig langar að biðja þingmenn að kveikja aðeins á því hvort hægt sé að koma fram með tillögur í atvinnumálum þar sem menn ganga út frá því í upphafi að þær muni ekki valda deilum. Er hugsanlega hægt að velta málinu fyrir sér á þann hátt? Þannig væri kannski hægt að komast að einhverri niðurstöðu. Að sjálfsögðu vita sjálfstæðismenn að tillögur þeirra munu valda deilum. Að sjálfsögðu veit Samfylkingin að tillögur hennar um erlenda fjárfestingu valda (Forseti hringir.) deilum. Þetta vita menn fyrir fram. Af hverju eru þau að þessu?