139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

fundarstjórn.

[14:44]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið talað um mikilvægi þess að bæta vinnubrögð í þinginu. Eitt af því sem menn þurfa að bæta og ég beini því sérstaklega til virðulegs forseta er hvernig ráðuneyti svara þingmönnum. Ég tek hér upp sérstakt mál, get tekið fleiri og mun gera það, þ.e. fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra sem kom fram í vor um sérfræðikostnað hjá starfsmönnum í háskólum. Þá var svarið að ekki væri hægt að svara vegna þess að ekki væri til starfsmannalisti í forsætisráðuneytinu. Ég spurði aftur og benti á vef háskólans en þar er fyrir alla jarðarbúa starfsmannalisti. Nú fæ ég nýtt bréf þar sem sagt er að þeir muni senda bréf í háskólann og biðja um starfsmannalistann vegna þess að það sé ekki nóg að hafa starfsmannalistann sem er á vef internetsins.

Virðulegi forseti. Þetta er fullkominn útúrsnúningur. Ég vil fá svar við sérfræðikostnaðinum hjá starfsmönnum og vísa í listann á vef (Forseti hringir.) alheimsnetsins og hvet virðulegan forseta til að sjá til þess að þetta verði gert.