139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[14:47]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Frú forseti. Það fer ágætlega á því að hér stendur til að ræða þingsályktunartillögu sem allir þingmenn Framsóknarflokksins standa að um svokallað samvinnuráð um þjóðarsátt. Ástæðan fyrir því að ég tel að það fari ágætlega á því að ræða þetta núna er sú að þetta er í raun mál sem er á margan hátt líkt því sem boðað hefur verið af ríkisstjórninni að undanförnu, á margan hátt segi ég vegna þess að á þessum málum er þó grundvallarmunur og til þess þarf að líta.

Ríkisstjórnin hefur talað um mikilvægi samstarfs og samvinnu milli stjórnar og stjórnarandstöðu og annarra aðila þar að auki, en það er einmitt það sem þessi tillaga gengur út á, að ná fram auknu samráði og samvinnu. Tillagan var raunar lögð fram fyrst í mars á þessu ári en þingflokkur framsóknarmanna hefur talað fyrir samvinnu og samstarfi stjórnarandstöðu og stjórnar allt frá því að flokkurinn gerði það sem ég held að sé óhætt að segja að hafi verið einstök tilraun í íslenskri pólitík með því að treysta núverandi stjórnarflokkum fyrir öllum ráðuneytum í minnihlutastjórn. Það gekk ekki sem skyldi en þó höfum við ekki gefist upp á því að tala fyrir samvinnu sem flestra þingmanna.

Ég nefndi að það væri þó grundvallarmunur á þessum tillögum og því sem ríkisstjórnin hefur verið að gera. Sá munur liggur fyrst og fremst í því að tillögurnar gera ráð fyrir stefnubreytingu, að ríkisstjórnin sætti sig við það að ef hún ætlar að fá alla með að borðinu verði hún að opna á að það verði raunveruleg stefnubreyting t.d. varðandi skuldamál heimilanna og varðandi atvinnumálin. Það hefur hins vegar ekki verið raunin í þeim viðræðum sem við höfum upplifað fram að þessu og raunar upplifað núna næstum því í tvö ár þar sem hvað eftir annað er talað um mikilvægi samstarfs. Það eru settir á fundir og fundirnir fara iðulega fram á sama hátt, fjölmiðlar mæta til leiks og ríkisstjórnin tilkynnir að hún sé aldeilis að taka undir ákall um samvinnu og samstarf en það gerist ekkert, það breytist ekki neitt í stefnu ríkisstjórnarinnar. Þetta gengur í rauninni bara út á það að fá stjórnarandstöðuna með í sömu súpuna og ríkisstjórnin hefur búið til.

Við sjáum svo hvert þetta átti að leiða og er þegar byrjað að leiða, þ.e. að vandræðagangur ríkisstjórnarinnar sé núna öllu þinginu að kenna, það sé öllum þingmönnum að kenna hvaða stefnu ríkisstjórnin hefur rekið, hvaða vonlausa stefnu hún hefur rekið. Þetta heyrðum við síðast áðan og m.a. í frammíköllum hæstv. utanríkisráðherra sem talar um að það sé verið að mótmæla þinginu öllu. Hæstv. forsætisráðherra kemur hér líka og leggur áherslu á að verið sé að mótmæla öllum þingmönnum, ekki bara ríkisstjórninni. Þetta er líklega fyrsta ríkisstjórnin í Íslandssögunni sem ekki tekur ábyrgð á eigin gerðum, tekur ekki ábyrgð á eigin stefnu þegar illa fer heldur ætlar að kenna stjórnarandstöðunni til jafns sjálfri sér um hvernig hefur farið. Þetta er mjög undarleg og mjög óheppileg nálgun á stjórnarhaldi og við sjáum hana líka birtast í því að það skortir fyrir vikið alla forustu. Hæstv. forsætisráðherra virðist halda að stjórnmálin snúist um það að framkvæma eingöngu það sem allir eru sammála um. Fyrir vikið hefur ósköp lítið gerst og þetta er kannski skýringin á því.

Hvernig má ráða bót á þessu? Með því að menn leggi línurnar strax í upphafi um hvert skuli stefna en jafnframt að menn skoði þá fleira en eitt í einu. Hér var byrjað á því að ræða um skuldastöðu heimilanna og síðan — því var reyndar ekki lokið þrátt fyrir yfirlýsingar um að það mál mundi klárast, menn mundu ekki standa upp fyrr — er talað um að nú eigi allir að koma saman að atvinnumálunum. Svona er þetta allt slitið í sundur, eitt leikrit sett á svið í einu. Við sjáum hvernig því leikriti sem byrjaði núna síðast hefur undið fram, því var haldið fram að stjórnarandstaðan hefði gengið af fundi, sem var náttúrlega alrangt, það var einfaldlega rangt eins og bent var á hér áðan. Það er tekið eitt atriði í einu og sett á svið einhver sýning í kringum það.

Grundvallaratriðin eru þau að það þarf að líta á allt, öll mikilvægustu úrlausnarefnin í sameiningu vegna þess að allt tengist þetta auðvitað og menn þurfa að opna á það að breyta um stefnu.

Ég ætla þá að byrja á því að lesa þingsályktunartillöguna sjálfa og fara svo stuttlega yfir hvert atriði fyrir sig. Tillagan hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að koma á fót samvinnuráði, vettvangi stjórnmálaflokka og hagsmunaaðila, til að ræða og leita leiða í anda þjóðarsáttar til langtímastyrkingar atvinnuvega landsins og efnahags þjóðarinnar til frambúðar. Í ráðinu sitji fulltrúar allra þingflokka, ásamt fulltrúum atvinnulífs, launþega, sveitarfélaga, fjármálafyrirtækja og Bændasamtaka Íslands. Ráðið leggi tillögur fyrir forsætisráðherra eigi síðar en 31. desember 2010 og ráðherra leggi fram lagafrumvörp til innleiðingar þeirra í íslensk lög ef þörf krefur. Markmið ráðsins verði eftirfarandi:

1. Almenn skuldaleiðrétting, með jafnræði, réttlæti og hagkvæmni að leiðarljósi, sem gagnist öllum.

2. Lækkun stýrivaxta Seðlabanka Íslands.

3. Trygging stöðugs verðlags.

4. Atvinnuskapandi framkvæmdir.

5. Jöfnun áhættu í skiptum lánveitenda og lántaka.

6. Stytting fyrningarfresta krafna eftir gjaldþrot.

7. Jöfnun samkeppnisstöðu fyrirtækja á markaði.

8. Sköpun stöðugleika og festu í rekstri ríkisins.

9. Gerð langtímaáætlana um útgjöld ríkisins.

10. Endurskipulagning ríkisfjármála og endurskoðun samstarfsáætlunar Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Nú má segja að ný skoðanakönnun hafi gert 10. atriðið auðveldara vegna þess að daginn eftir að Samfylkingin missti verulegt fylgi í skoðanakönnun opnaði hæstv. forsætisráðherra allt í einu á það að endurskoða samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Byrjum á lið 1, almenn skuldaleiðrétting. Ég ætla ekki að verja löngum tíma í að fara yfir þetta mál sem hefur svo mikið verið rætt á undanförnum tveimur árum en þó væri kannski ekki vanþörf á vegna þess að enn koma hæstv. ráðherrar og segjast ekki hafa séð hvernig eigi að framkvæma almenna skuldaleiðréttingu eins og við báðum þá um og að kynna sér málið á sínum tíma. Við höfum þó séð það á þessum tveimur árum, eins og við héldum fram á sínum tíma, að lán heimilanna voru færð úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju með verulegri niðurfærslu og það skapar þá talsvert svigrúm. Við höfum líka séð að besta leiðin til að ná jafnræði í aðgerðum í skuldamálum eru almennar aðgerðir. Það sem menn óttuðust kannski á sínum tíma var að þeir sem skulduðu mest fengju hæstu krónutölu afskrifaða, og í rauninni er það auðvitað þannig með almennum aðgerðum að sá sem skuldar mest fær hæstu krónutölu afskrifaða en hlutfallið er það sama. Það er bara verið að færa alla aftur á þann stað sem menn voru í byrjun árs 2008 eða þar um bil.

Hvað hefur hins vegar gerst með sértæku aðgerðunum? Það hefur eingöngu verið komið til móts við þá sem skulda mest og afskriftirnar þar iðulega miklu meiri en 20% svoleiðis að þetta er líka spurning um réttlæti. Þetta er spurning um að allir sitji við sama borð og að þeir sem áttu dálítið eigið fé þurfi ekki að sæta því að það þurrkist allt út, í rauninni að millistéttin sé þurrkuð út, vegna þess að það sé eingöngu komið til móts við þá sem eru komnir í þrot. Þetta skapar líka mjög hættulega öfuga hvata í hagkerfinu. Það ýtir undir það að fólk fari einfaldlega í þrot vegna þess að öðruvísi er ekki komið til móts við það. Það vantar hvatann til að vinna sig út úr vandræðunum, til þess að byggja upp.

Við höfum líka farið ítarlega yfir það hvernig niðurfærsla lána sem er ekki innstæða fyrir í hagkerfinu getur ýtt undir hagvöxt, komið hagkerfinu af stað, og séð dæmi um það hvernig fer þegar menn afskrifa ekki það sem þarf að afskrifa, eins og í Japan þar sem hefur ríkt stöðnun og ekki verið hagvöxtur í 20 ár. Tap Japana af því er þegar orðið miklu meira en ef þeir hefðu bara horfst í augu við tapið á sínum tíma og afskrifað.

Svo er þetta líka ágætlega til þess fallið að ná samstöðu vegna þess að málið er í raun svo einfalt, það er eins og ég nefndi áðan bara verið að leiðrétta lán allra jafnt, færa alla í þá stöðu sem þeir voru í áður en þessi svokallaði forsendubrestur varð. Við hljótum að geta tekið undir það öll að þetta hafi verið forsendubrestur og því sé réttlætanlegt gagnvart öllum að þeir fái leiðréttingu.

Hvað varðar möguleikana á því að framkvæma þetta, fjárhagslegar forsendur, þá hef ég rakið það áður í þingræðu og læt nægja að vísa til þess þó að auðvitað, eins og ég tók þá fram, séu aðstæðurnar orðnar bæði mun flóknari og það sé orðið dýrara að ráðast í almenna niðurfærslu en var á sínum tíma og það er atriði út af fyrir sig. Það þarf að skoða hvers vegna ekki var léð máls á þessu á sínum tíma og hvers vegna það leiddi til þessa mikla taps, tapsins sem birtist í því að þetta sé orðið miklu dýrara núna.

Hér er nefnd vaxtalækkun, sem er liður nr. 2. Ég heyrði hæstv. forsætisráðherra hreykja sér af vaxtalækkuninni áðan, að ríkisstjórnin hefði lækkað vexti. Við vitum að auðvitað er það ekki svo. Það er Seðlabankinn sem tekur ákvörðun um slíkt. Við töldum hins vegar þegar við lögðum fram þessa tillögu að ástandið væri orðið þannig að það réttlætti inngrip í þetta. Og nú minni ég á að hér er ekki bara um ræða samstarf stjórnmálamanna heldur utanaðkomandi aðila og Seðlabankinn kæmi þá inn í þetta líka þannig að það væri tekin sameiginleg ákvörðun um það að lækka vexti. En þar getur þurft að koma til samstarf og samráð ólíkra aðila og Seðlabankinn að sætta sig við að stefna hans fram að þessu hafi orðið undir, njóti ekki meirihlutastuðnings, og það sé rétt í því tilviki að gefa eftir gagnvart í rauninni eiginlega öllum öðrum.

Við nefnum mikilvægi stöðugs verðlags í lið nr. 3 og þar getur ríkið haft forustu vegna þess að við höfum séð það á undanförnum tveimur árum þegar ráðist hefur verið í skattahækkanir á neysluvörum að í fyrsta lagi hækkar það verðlagið og verðbólguna en ýtir í rauninni undir enn þá meira tjón í formi hækkunar á verðtryggðum lánum. Þarna þyrfti ríkið að taka af skarið en í samstarfi við fulltrúa atvinnurekenda um að menn komi á stöðugu verðlagi eins og tókst ágætlega í þjóðarsáttarsamningum á sínum tíma.

Liður nr. 4 snýr að því að ráðist verði í framkvæmdir strax. Það eru nokkur verkefni sem er óhætt að segja að bíði eftir því að ríkið hleypi þeim af stað eða réttara sagt að ríkisstjórnin hætti að leggja steina í götu verkefnanna. Til dæmis voru kynnt ein 30 slík verkefni í iðnaðarnefnd fyrir ekki svo löngu síðan. En lykilatriðið í þessu er þó að skattstefnunni verði breytt þannig að hún ýti undir fjárfestingu og aukin umsvif í atvinnulífinu frekar en að draga úr þeim. Það er í rauninni ekki hægt að ræða atvinnumálin án þess að ræða skattstefnuna um leið. Þess vegna lagði ég svo mikla áherslu á það í fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra áðan að ef fara ætti að ræða samstarf í atvinnumálum mundu menn opna á það breyta skattstefnu ríkisstjórnarinnar.

Liður nr. 5 snýr að því að áhættu verði skipt milli lánveitenda og lántaka. Þetta lýtur að verðtryggingu og ábyrgðum og hefur svo sem verið farið ítarlega í gegnum tillögur okkar á þessu sviði í frumvörpum og þingsályktunartillögum en ég ætla ekki að fara nánar út í það hér, enda er hugmyndin ekki sú að það sé endilega farið nákvæmlega að þeim tillögum sem framsóknarmenn hafa lagt fram heldur að menn sammælist um það í þessu atriði eins og hinum að vinna að þessu meginatriði, að áhættu verði skipt með sanngjarnari hætti milli lánveitenda og lántaka.

Liður nr. 6 er um breytingu á fyrningarfresti krafna. Þetta mál er reyndar komið á ágætisrekspöl sem betur fer með nýju frumvarpi sem þó mun líklega þurfa að gera töluverðar breytingar á. Menn hafa fundið á því ýmsa galla en vonandi má finna lausnir á þeim.

Liður nr. 7 er um meðferð banka á rekstrarfélögum. Þetta er í rauninni mjög stórt og mikilvægt atriði. Þegar við tölum um að byggja þurfi upp atvinnu í landinu, byggja upp öflug ný fyrirtæki og halda eldri fyrirtækjum í rekstri er alveg stórskaðlegt að hluti fyrirtækjanna njóti sérstöðu, sé rekinn af bönkunum og í sumum tilvikum beinlínis rekinn af ríkinu og fyrirtæki sem eru að reyna að þrauka, eru áfram í rekstri, hafa ekki farið í þrot, búi við mjög skerta samkeppnisstöðu gagnvart þessum fyrirtækjum.

Liður nr. 8 er um að nýta sérfræðiráðgjöf og skapa aukinn stöðugleika í stjórnsýslunni. Þarna hefur orðið mikill misbrestur á. Það vantar mikið upp á að menn leiti eftir sérfræðiráðgjöf til þeirra sem best þekkja til, þ.e. út fyrir nánustu pólitísku samherja.

Liður nr. 9 er um gerð langtímaáætlunar í útgjöldum ríkisins, þ.e. að aðgreina betur fjárfestingu og rekstur við fjárlagagerð. Ég hef talað töluvert um þetta í fyrri ræðum.

Liður nr. 10 er um samstarf um ríkisfjármál, m.a. samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Nú er tíminn á þrotum og ég fæ kannski að ræða þetta aðeins betur á eftir eða í andsvörum.