139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[15:09]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég gat ekki skilið hæstv. utanríkisráðherra öðruvísi en svo að hann væri að tala um hlut sem hann hefur reyndar nefnt áður og fyrir nokkru síðan, sem ég hef nefnt líka og hv. formaður Sjálfstæðisflokksins, þ.e. að við séum hugsanlega komin í þá stöðu að allir flokkar þurfi að fara að vinna saman að lausn nokkurra mála í stjórnun.

Það er rétt hjá hæstv. utanríkisráðherra að stjórnarandstaðan er brennd af þessu meinta samráði eða samstarfi við ríkisstjórnina, enda höfum við hvað eftir annað talið okkur vera að fara inn í raunverulegt samstarf og samráð þar sem skoðanir okkar eða tillögur mundu hafa eitthvert vægi en ekkert verið gert með þær. Við höfum hvað eftir annað lent í miðri leiksýningu og í einhverjum spunaleikritum. Skýrasta og fyrsta dæmið var náttúrlega þegar minnihlutastjórnin var mynduð og við lögðum fram efnahagstillögur framsóknarmanna, eins og samið hafði verið um, og það var ekki einu sinni litið á þær heldur settur af stað alveg ótrúlegur fjölmiðlaspuni. Ef við lítum bara kalt á hlutina virðist eina leiðin til að ná fram raunverulegu samstarfi, samstarfi sem líklega er rétt hjá hæstv. ráðherra að væri æskilegt við þessar aðstæður, eina leiðin til að ná því fram virðist sú að allir flokkar á Alþingi komi að stjórn landsins. Annars erum við áfram í þessum leikritum sem við höfum horft á síðastliðin tvö ár. En það er hlutverk ríkisstjórnar, þeirra sem eru í meiri hlutanum, að fara með valdið — það er hlutverk stjórnarandstöðu að veita aðhald — og ekki eðlilegt að ríkisstjórn sem fer með meirihlutavald skuli hvað eftir annað segja þegar eitthvað fer ekki nógu vel eða gengur ekki nógu hratt að það sé öllum þingmönnum að kenna.