139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[15:14]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Af því að hv. þingmaður spurði í fullri einlægni eins og hann orðaði það skal ég reyna að svara í fullri einlægni. Ég hef af því talsverðar áhyggjur að jafnvel þótt tillagan yrði samþykkt mundi þetta snúast upp í enn eina spunasýninguna. Ástæðan fyrir því að ég hef þessar áhyggjur er bara reynslan. En þá væri mikilvægt að huga að því sem er grundvallaratriði í þessu að menn mundu leggja línurnar áður en farið væri af stað. Það hefur kannski verið vandamálið í þessu samstarfi fram að þessu nema reyndar í minnihlutastjórnarsamstarfinu þar sem átti að reyna að leggja línurnar áður en lagt væri af stað en var þó ekki gert. En já, það má segja að í öllum tilvikum hafi menn farið í þetta meinta samstarf án þess að leggja línurnar, að hverju yrði unnið og svona nokkurn veginn hvað væru ásættanlegar leiðir í því.

Við sjáum t.d. í samstarfinu um skuldamálin þar sem forsætisráðherra byrjar á því að segja og í rauninni gefa mjög sterkt til kynna að þetta eigi að snúast um að finna leiðir til þess að ráðast í almenna leiðréttingu. Gott og vel. Þá bitu menn á agnið og ætluðu að taka þátt í þeirri vinnu. Hvað kemur síðan á daginn? Hæstv. forsætisráðherra kemur og segir: Bankarnir voru ekki hlynntir þessari leið og þess vegna getum við ekki farið út í þetta. Þetta vissi hæstv. forsætisráðherra fyrir og var búin að vita í tvö ár. Hvers vegna gaf hæstv. forsætisráðherra þá annað í skyn? Það var eingöngu til að fresta vandanum, setja á svið sýningu. Ef út í þetta yrði farið þyrfti því að liggja fyrir frá upphafi að menn ætluðu í sameiningu að fara í þessi verkefni, hugsanlega dálítið breytt ef menn vilja og nokkurn veginn samstaða um leiðir í því. Ég nefni sem dæmi að menn væru tilbúnir til að ráðast einhvers staðar orkuframleiðslu. Eingöngu þannig væri óhætt að fara af stað í þetta.