139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[15:16]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hreinskilið svar. Ég held að það væri margt, kannski flest betra í störfum þingsins ef þeir sem eru spurðir svöruðu með þessum hætti, því að því miður held að fyrir mörgum virðist þetta bara ein allsherjarleiksýning. Ég vona að það sé ekki þannig, margt erum við að vinna vel saman, sérstaklega í nefndum þingsins, en því miður er þetta ekki eins og það á að vera.

Stóra málið er þetta: Þeim spurningum sem bornar eru fram verður líka að svara í samvinnu í málum eins og þessum. Það verður að vera skýrt hvað ríkisstjórnin vill. Hún ræður, hún er með þingmeirihluta. Hv. þingmaður sagði að það þyrfti að leggja línurnar og nefndi orkumálin. Það verður að liggja fyrir, ef ríkisstjórnin vill ekki fara í slíkt verður hún að segja það. Ef hún vill ekki fara í Helguvík verður hún að segja það og síðan hvað eigi að gera í staðinn. Við erum hins vegar búin að vera í einhverri leiksýningu í tvö ár þar sem hæstv. ríkisstjórn reynir að láta líta út fyrir að hún sé hálfpartinn fylgjandi því en hálfpartinn ekki. En síðan gengur hvorki né rekur vegna þess að einstaka hæstv. ráðherrar stöðva málið, svo ég taki bara eitt dæmi.

Nú held ég þegar við hlustum á fólkið hérna úti, og það er alveg sama við hvern ég tala og ég tala við marga, ég held að 80% almennings á Íslandi séu sammála um, jafnvel 90%, hvað þurfi að gera og flestir eru meðvitaðir um að þetta eru mjög erfiðir tímar. Þetta verður ekki auðvelt og það þarf að taka erfiðar ákvarðanir en ef við gerum það munum við geta unnið okkur hratt og vel upp úr þeirri stöðu sem við erum í núna. Ég hef bara áhyggjur af því, virðulegi forseti, að með þessa forustu í ríkisstjórn sé ekki hægt að taka á málum og vinna sig út úr þessu. Jafnvel þó að við fengjum þetta góða mál (Forseti hringir.) fram held ég að sé alveg útséð með það að núverandi forusta í ríkisstjórninni geti klárað þessi mál.