139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[15:43]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Einar Árnason, aðstoðarmaður hæstv. dómsmálaráðherra, skrifaði nokkuð af greinum þegar hann gegndi starfi sínu sem hagfræðingur BSRB. Þar færði hann rök fyrir því hvernig vísitalan væri reiknuð á Íslandi, það væri ekki gert nægilega vel. Hún brygðist ekki nógu hratt við þegar skyndilegar breytingar yrðu á neysluhegðun fólks. Síðan hafa menn líka velt fyrir sér hvort það væri eðlilegt í tengslum við húsnæðislán að frekar væri horft til verðlags á húsnæði en verðlags á bensíni eða áfengi og tóbaki sem ríkið hefur mikil áhrif á.

Þó ég sé sammála hæstv. ráðherra um að aðalatriðið sé að afnema verðtrygginguna til framtíðar, þá þurfum við að taka á forsendubrestinum sem varð árið 2008 og ná niður höfuðstólnum. Þetta er leið (Forseti hringir.) til þess að ná niður höfuðstólnum án þess að við þurfum að staðgreiða það einn, tveir og þrír.